Hvalá: engar verulegar truflanir af kærunni

Kröfulína ríkisins fyrir Óbyggðanefnd. Landamerki Drangavíkur eru greinilega innfærðar.

Fréttaskýring:

Gunnar G. Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks ehf segir að að engar verulegar truflanir verði á rannsóknum í sumar  til undirbúnings Hvalárvirkjun þrátt fyrir kæru meirihluta landeigenda jarðarinnar Drangavíkur til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Í svipaðan streng tekur Pétur Guðmundsson, Ófeigsfirði. Hann segist ekki sjá annað en að rannsóknirnar eigi að geta farið fram að mestu leyti þar sem þær eru utan þess lands sem kærendur gera tilkall til svo jafnvel þótt Úrskurðarnefndin liti til kröfunnar þá geta eigendur Drangavíkur ekki krafist banns á rannsóknum á landi sem er ekki í þeirra eigu.

Kærendur segjast eiga töluverðan hluta lands sem hefur verið litið á sem hluta af aðliggjandi jörð Engjanesi og í krafti þess eignarhalds gera þeir kröfu um að tvær ákvarðanir hreppsnefndar Árneshrepps verði felldar úr gildi, þ.e. samþykkt deiliskipulags vegna rannsóknanna í sumar og útgáfa framkvæmdaleyfis til Vesturverks ehf fyrir sömu rannsóknum.

Þá er þess krafist að Úrskurðarnefndin stöðvi til bráðabirgða framkvæmdir í sumar meðan málareksturinn fer fram fyrir nefndinni. Verður sú krafa tekin fyrir fyrst og hefur málsaðilum verið gefinn kostur á að skila gögnum fyrir 1. júlí. Að öðru leyti er frestur 30 dagar frá 24.6. 2019 til að gera athugasemdir vegna kærunnar.

Kærendur vísa til þinglýstrar landamerkjaskrár frá 2. júlí 1890 máli sínu til stuðnings og segja það staðfesti að jörðin Drangavík sé mun stærri en miðað er við. Það er einkum tilfærsla á landi frá jörðinni Engjanesi til Drangavíkur en líka spilda úr jörðinni Ófeigsfjörður sem færist til Drangavíkur samkvæmt teikningu sem kærendur hafa látið gera af jörðunum og sýna breytingarnar.  Landamerkjabréfið frá 1890 hefur hins vegar ekki verið sýnt.

Eyvindarfjarðará

Landamerkjakrafan getur haft áhrif  á virkjun Eyvindarfjarðará og samnefnds vatns en ætlunin er að stækka Hvalárvirkjun með því að nýta Eyvindarfjarðará og bæta henni við. Án hennar yrði afl Hvalárvirkjunar minna en engu að síður yrði unnt að reisa virkjunina án samþykkis landeigenda Drangavíkur.

Samningar og eignarréttindi

Samningar hafa verið gerðir milli Vesturverks ehf og eigenda Engjanesjarðarinnar um nýtingu vatnsréttindanna og greiðslur fyrir svo og samningar um rannsóknir og virkjunarframkvæmdir. Þeir samningar standa þrátt fyrir framkomna kæru. Til þess að hafa áhrif á gerða samninga þarf fyrst að sanna fyrir réttum aðila annað eignarhald og þar með aðra samningaðila. Þegar það liggur fyrir er næst að skoða hvaða áhrif það kann að hafa á þá samninga.

Það er ekki innan verksviðs Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál að úrskurða um eignarhald á landi. Hlutverk nefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana en ekki um eignarréttindi.  Nefndin er hluti af framkvæmdavaldinu og þess vegna afmarkast verksvið hennar af ákvörðunum sem aðilar innan þess taka, svo sem sveitarstjórnir og stofnanir. Þess vegna verður ekki séð að Úrskurðarnefndin geti tekið kæruna til meðferðar þar sem ekki ligur fyrir að kærendur séu rétthafar að landinu sem þeir gera ágreining um.

Langvarandi athafnaleysi

Það vinnur líka gegn kærendum að áform um Hvalárvirkjun hafa verið uppi í um það bil áratug. Málið hefur tvisvar farið í gegnum rammaáætlun sem er rækilega auglýst opinbert ferli þar sem allir sem telja sig málið varða  hafa getað sett fram sínar kröfur og sjónarmið. Eigendur Drangavíkur hafa hvergi, svo vitað er, haldið fram þessum nýju landamerkjakröfum hvorki í rammaáætlunarferlinu í tvígang, skipulagsbreytingum með umhverfismati á vegna Árneshrepps né vakið athygli á kröfum sínum þegar gerðar voru samningar um nýtingu vatnsréttindanna. Athafnaleysið byggir bersýnilega á því að kærendur hafa ekki talið að þeir ættu landið og þeir hafa um margar ára skeið hagað sér í samræmi við það.

Ríkið telur Drangavík ekki eiga land að Drangajökli

Í kröfulýsingu ríkisins fyrir Óbyggðanefnd sem dagsett er 5. október 2018 er Drangavík ekki talin eiga land að Drangajökli og í korti sem fylgir með kröfulýsingunni sést greinilega að þar er það jörðin Engjanes sem nær yfir það svæði sem tíu eigendur Drangavíkur gera nú tilkall til. Það er athyglisvert að kærendur vísa máli sínu til stuðnings í landamerkjabréf frá 1890 en það gerir ríkið líka til stuðnings því að jörðin Drangavík sé eins og teikningin sýnir.

Skýrt er tekið fram í kröfulýsingu ríkisins að jarðirnar Drangar og Engjanes í Árneshreppi liggi að jöklinum. Hvergi er minnst á Drangavík.

Um jörðina Engjanes segir í kröfulýsingungu ríkisins til stuðnings því að sú jörð liggi að Drangajökli:

Engjanes í Árneshreppi, (aðliggjandi)

„Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Engjanes í Árneshreppi, nr. 94, dags. 2. júlí 1890,
þinglesið sama dag, segir m.a. svo um landamerki:
„Hornmark milli Engjanes og Drangavíkur er Þrælskleif, þaðan beint til fjalls, svo eptir hæstu fjallsbrún að Eyvindarfjarðará en hún ræður merkjum til sjóar milli Engjaness og Ófeigsfjarðar, […]““.

Þarna vísar ríkið í landamerkjabréfið frá 1890 til stuðnings því að landið tilheyri Engjanesi. En kærendur og eigendur að Drangavík vísa í kæru sinni frá í gær í sama bréf til stuðnings því að þeir eigi landið. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls.

-k

 

DEILA