Hrafnseyrargöng

Frá útskrift meistaranemenda við Háskólasetur Vestfjarða á Hrafnseyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Til Hrafnseyrarnefndar, forsætisráðherra, vegamálastjóra og vina Hrafnseyrar.

 

Hún er enn vakandi í huga mér gleðin sem greip mig þegar ég á leið minni  um Vestfirði í hitteðfyrra ók út Arnarfjörð og sá hvar kominn var munni nýrra jarðgangna hjá Rauðstöðum. Ég fagnaði með sjálfum mér þessum framkvæmdum og áformuðum vegabótum á Dynjandisheiði og jafnvel í Suðurfjörðum.

Ég hef séð með eigin augum hversu mjög göngin undir Breiðadalsheiði (sem heita eignlega ekki neitt (!) en eru stundum kölluð Vestfjarðagöng) hafa breytt byggðaforsendum í Ísafjarðarsýslum, opnað landið og greitt samgöngur til aðfanga, útflutnings og menningarsamskipta. Og þess vegna veit ég að göngin nýju eiga eftir að valda stórfelldum umbótum.

Ég hef kvakað aðeins um það á Fésbókinni að nýju göngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar þurfi að heita Hrafnseyrargöng. Ég er hræddur um að þegar Hrafnseyri verður ekki lengur í alfaraleið muni erfiðara að halda þar uppi minningu Jóns Sigurðssonar, forseta. Ódýrari auglýsing um staðinn verður hins vegar vart upphugsuð með öðru móti en nefna þessi göng eftir fæðingarstað hans.

Nú er það svo að vinnuheiti framkvæmda af þessu tagi eru tekin upp af mismikilli framsýn eða af því að þeim sem um vélar finnst eitthvað augljóst. Engar augljósar reglur koma reyndar fram í nafngiftum jarðgangna á Íslandi nema þá helst tilvísan í að þau opni torleiði á mikilvægan stað. Í þessu tilefni vissulega helgasta sögustað Vestfirðinga og einkarlega Ísfirðinga sem sendu Jón Sigurðsson margsinnis á þing.

Nú er tími til ákvörðunar nafngiftar þessara gangna að íhuguðu máli.

Hrafnseyrargöng leysa af Hrafnseyrarheiði, nafnfrægan veg og hættulegan. Nafnið vísar á þann sögustað sem er einna dýrmætastur í Íslandssögunni og enginn sögustaður á Vestfjörðum gegnir meiru, er uppeldisreitur þjóðhetjunnar Jóns Sigurðssonar, bústaður miðaldahöfðingjans Hrafns Sveinbjarnarsonar og landnámsbærinn þar sem Grelöð fann forðum ilm úr grasi. Öll voru þau framfarasinnar. Jón reit margt um framkvæmdir og atvinnuháttu í því skyni að örva til framtaks. Hann hefði glaðst yfir öllum þessum vegabótum með eflingu mannlífs og atvinnureksturs.

Saga Hrafnseyrar er í senn löng og tengd nafni sem Hrafnseyrarnefnd og yfirvöld landsins eiga að standa árvakran vörð um.

Því skora ég á Hrafnseyrarnefnd, yfirvöld og alla vini Hrafnseyrar að leiða hugsun og ábyrgð að þessu máli og ef hugur vill að veita atbeina til þess að Hrafnseyrargöng verði með margvíslegum hætti leiðin heim að Hrafnseyri, heim til okkar sjálfra.

Með ættjarðarkveðjum.

 

Sr.Jakob Ágúst Hjálmarsson

Fyrrum sóknarprestur Ísafjarðar, dómkirkjuprestur og Vestfirðingur

DEILA