Hólmadrangur: nauðasamningar samþykktir

Rétt í þessu var að ljúka fundi þar sem frumvarp að nauðasamningum fyrir Hólmadrang ehf var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða og mótatkvæðalaust. Það voru 25 kröfuhafar sem höfðu lýst kröfum og voru mættir. Greiddar verða 300 þúsund krónur til hvers og að auki 40% af kröfunum. Heildarkröfurnar voru um 170 milljónir króna.

Sigurbjörn  Rafn Úlfarsson, framkvæmdastjóri Hólmadrangs sagði í samtali við Bæjarins besta að niðurstaðan væri mikill léttir fyrir fyrirtækið og sveitarfélagið. Hann vildi færa kröfuhöfum þakkir fyrir skilning þeirra á stöðu fyrirtækisins og byggðarlagsins.

Sigurbjörn sagði að þrátt fyrir þessa erfiðu stöðu undanfarna mánuði hefði ekki fallið dagur úr vinnu. Liðlega 20 manns vinna hjá Hólmadrangi í fullu starfi og starfsemin hafi verið á fullum afköstum, gengið vel og skilað framlegð sem nýttist til samninga við kröfuhafa.

Hann segir að framundan sé að fá meira fé inn í reksturinn og sagðist vera bjartsýnn á  framtíð Hólmadrangs ehf eftir þessa niðurstöðu í dag.

DEILA