Halldór Smárason tekur upp plötu á Ísafirði

Halldór Smárason, tónlistarmaður stendur í ströngu þessa dagana. Hann er að taka upp efni á fyrstu plötu sína og upptökur fara fram í Hömrum á Ísafirði.

Halldór sagði í samtali við Bæjarins besta að hann hefði komið á sunnudaginn með 14-15 manna hóp og hefðu upptöku hafist þegar í gær og myndu standa út vikuna. Þetta er fyrsta plata með klassískum verkum eftir Halldór sem mun koma út á næsta ári.

„Það sem rak smiðshöggið á þá ákvörðun að gera plötuna fyrir vestan var styrkur  sem fékkst frá Straumi, sem er átak sem tengist Sóknaráætlun Vestfjarða“ sagði Halldór.

Flytjendur eru íslenskir, meðal annars Strokkvartettinn Siggi og kammerhópurinn Elektra Emsemble.

Útgáfufyrirtækið er Bandarískt Sono Luminus og á vegum þess eru hér tveir upptökumenn.

Halldór Smárason er búsettur í Hveragerði síðan 2015 er hann hafði lokið námi í tónsmíðum, hann segist hafa nóg að gera við að semja tónlist og spila. Framundan hjá honum er að skrifa verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem á að flytja í janúar 2020.

Myndir: Ásgeir Helgi Þrastarson.

DEILA