Fjórir Vestfirðingar á Norðurlandamót unglinga

Fjórir leikmenn Vestra í körfuknattleik eru í unglingalandsliði Íslands sem fór til Finnlands í gær til að taka þátt í Norðurlandamóti U16 og U18 landsliða  í Kisakallio.

Alls fór um 70 manna hópur frá KKÍ leikmenn og fararstjórar. Öll liðin leika einn leik á dag og alls fimm leiki gegn liðum Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og Eistlands.

Leikmennirnir á NM þetta árið koma frá 16 aðilarfélögum KKÍ og einn leikmaður er búsettur í Bandaríkjunum.

Í dag fimmtudag 27. júní er fyrsti keppnisdagur íslensku liðanna gegn Noregi hjá öllum okkar liðum. Alls eru fjögur lið frá hverju landi U16 lið stúlkna og drengja og U18 einnig bæði stúlkna og drengja.

Leikmenn Vestra sem fóru utan eru Helena Haraldsdóttir sem leikur með U16 liði stúlkna, Friðrik Heiðar Vignisson sem er í U16 liði drengja. Friðrik Heiðar er reyndar frekar Strandamaður en hann er nýlega fluttur til Ísafjarðar frá Hólmavík með foreldrum sínum.

Þá eru bræðurnir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir í U18 landsliði drengja.

Þetta verður að teljast glæsilegur hópur frá Vestfjörðum og vera góður vitnisburður um æskulýðs- og íþróttastarf á vegum Vestra og aðstandenda ungmennanna og bætist góða frammistöðu Patreksfirðinga í frjálsum íþróttum ungmenna um síðustu helgi.

 

DEILA