Fiskeldisfrv: dregið í land

Kolbeinn Óttarsson Proppe, alþm.

Kolbeinn Óttarsson Proppe, alþingismaður Vinstri grænna og  talsmaður atvinnuvegnanefndar Alþingis í þessu máli dregur heldur í land varðandi bann við eldi á frjóum laxi. Í Fréttablaðinu í gær sagði hann það vera sýn nefndarinnar að eldi á frjóum laxi verði ekki stundað í opnum kvíum.

Meirihluti þingnefndarinnar leggur til að lögin, sem ætlunin er að setja nú,  verði endurskoðuð eigi síðar en í maí 2024.

Það er skýrt þannig í áliti nefndarinnar að meiri hlutinn „telur að ekki sé langt þangað til að eldi á frjóum laxi verði eingöngu stundað í lokuðum og hálflokuðum kvíum. Að því beri að stefna og í því skyni þarf á næstu árum að fara fram endurskoðun á lagaumhverfi fiskeldis þar sem tekið verður tillit til þeirra framfara sem hafa orðið, m.a. á eldisbúnaði.“

Kolbeinn var af þessu tilefni spurður að því hvort það væri ætlun nefndarinnar við endurskoðun laganna að stefna að banni við eldi á frjóum laxi í opnum kvíum.

Í svari sínu segir Kolbeinn að þetta sé ótímasett framtíðarsýn.

„Þessi framtíðarsýn er sett fram í áliti meirihluta atvinnuveganefndar. Engin leið er til að segja um hvenær hún næst og þess vegna er engin tímasetning á henni, aðeins sagt að styðjast eigi við bestu fáanlegu tækni. Það er því engin sérstök forskrift um það hverju endurskoðunin eigi að skila.“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins tekur sterkar til orða og segir að ekki séu áform um að banna eldi í opnum eða hálfopnum kvíum.

„Nei það er ekki áform um að banna eldi í opnum eða hálfopnum kvíum. Eins og má sjá i gjaldafrumvarpinu þá fá þeir sem erum í lokuðum kvíum afslátt af gjaldi.

En gert er ráð fyrir að tæknin leiði okkur frekar í átt að lokuðum kvíum í framtíðinni og við verðum að fylgjast með því. En á meðan það hentar ekki íslenskum aðstæðum þá höldum við okkur við opnar.“

Boðaðar eru breytingar á frumvarpinu fyrir þriðju umræðu en þær tillögur hafa ekki verið kynntar.

 

DEILA