Fiskeldi: minnihlutinn styður frumvarpið

Minnihluti atvinnuveganefndar Alþingis, sem er skipuð fulltrúum Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata styður framkomið frumvarp ríkisstjórnarinnar um fiskeldi en leggur til breytingar.

Vill tryggja hagsmuni náttúrunnar

Í áliti sínu segir minnihlutinn að hann  taki undir flestar breytingartillögur sem meirihlutinn hefur lagt fram, en vill ganga lengra til að tryggja hagsmuni náttúrunnar:

„en í nokkrum veigamiklum atriðum er þó ástæða til að ganga lengra til að tryggja að hér verði í gildi framsækin fiskeldislöggjöf sem tryggir hagsmuni náttúrunnar og taki mið af hagsmunum nærsamfélagsins og atvinnugreinarinnar. Það er sannfæring minni hlutans að ef gerðar eru skýrar kröfur til fiskeldis, ekki síst varðandi umhverfis- og náttúruvernd, skili það aukinni arðsemi af fiskeldi til lengri tíma fyrir íslenskt samfélag.“

Minna fiskeldi en meiri gæði

Þá er svo að skilja að minnihlutinn vilji frekar minna fiskeldi en meira og stefna þess í stað að meiri gæðum samanber það sem fram kemur í nefndarálitinu:

„Til dæmis stefna Norðmenn á að fara úr 1,2 milljóna tonna framleiðslu í um 5 milljónir tonna árið 2050. Ísland, með ríflega 70 þúsund tonna framleiðslu, mun eiga erfitt uppdráttar í slíkri samkeppni. Sérstaða íslenskrar framleiðslu liggur í gæðum vörunnar og þar gæti Ísland komið til móts við ríkar kröfur um sjálfbærni og náttúruvernd og skapað sér sérstöðu á markaðnum.“

Vilja umhverfissamtök í samráðsnefnd

Minnihlutinn er sammála um skipun samráðsnefndar um fiskeldi en vill bæta þar við fulltrúa frá Umhverfisráðherra sem verði frá umhverfisverndarsamtökum. Þá leggst minnihæutinn gegn því að samráðsnefndin fjalli um forsendur áhættumatsins og vill að Hafrannsóknarstofnun ráði því .

Þá vill minnihlutinn hækka gjöld í umhverfissjóðs fiskeldis fyrir fiskeldi í opnum kvíum til þess að auka hvatann til að stunda fiskeldið í lokuðum kvíum.

Umsóknir falli niður

Minnihlutinn vill ekki að  óafgreiddar umsóknir um resktrarleyfi fyrir eldi á svæðum sem hafa verið burðarþolsmetin haldi sér heldur falli þær umsóknir niður nema Matvælastofnun hafi staðfest móttöku umsóknar fyrir 5. mars 2019. Um þetta segir í nefdarálitinu:

„Samkvæmt frumvarpinu eins og það var lagt fram er hins vegar gert ráð fyrir að gamla löggjöfin gildi áfram um þau svæði sem hafa verið burðarþolsmetin. Það telur minni hluti óásættanlegt enda á nýja löggjöfin að ýta undir að staðið verði að eldi á sjálfbæran hátt þar sem litið er til hagsmuna samfélagsins, náttúrunnar og fyrirtækjanna í mati á umsóknum.“

Jökulfjörðum lokað

Minnihlutinn leggur til formlega breytingartillögu við frumvarpið þar sem  segir að „Óheimilt er að heimila nýtingu Jökulfjarða í Ísafjarðardjúpi undir fiskeldi.“

Það er skýrt í nefndarálitinu þannig:

„Þó að ekki hafi verið fjallað um það sérstaklega í nefndinni í vetur er ljóst að það er afar umdeilt hvort heimila eigi fiskeldi á verndarsvæðum eins og t.d. í Jökulfjörðum. Þeir tilheyra að hluta Hornstrandafriðlandinu sem er einstakt svæði á heimsvísu. Þar lagðist búseta af um miðja síðustu öld, áður en innviðir eins og vegir og raflínur voru lagðar. Minni hlutinn telur mikilvægt að slíkar náttúruperlur fái að njóta sérstöðu sinnar og verði friðaðar til framtíðar. Er því lögð til sú breyting á 3. gr. að óheimilt verði að heimila nýtingu Jökulfjarða undir fiskeldi.“

 

 

DEILA