Bolungavík: lögreglan stöðvaði tunnulestina

Lögreglan á Vestfjörðum hafði afskifti af tunnulestinni sem ætlunin var að nota á hátíðahöldum sjómannadagsins í Bolungavík á laugardaginn. Sigurjón Sveinsson, formaður Björgunarsveitarinnar Ernis staðfestir í samtali við Bæjarins besta að lögreglan hafði samband við hann og stöðvaði notkun á lestinni og sagði lögregluþjónninn að lestin samræmdist ekki reglum og bar fyrir sig yfirboðara sinn. Sigurjón segir að þá hafi aðeins verið búið að fara  eina, tvær ferðir.

Helgi Hjálmtýsson, viðburðastjóri hjá Bolungavíkurkaupstað segir að lestin sé í eigu kaupstaðarins.  Það hafi verið nemendur við Málmiðnaðardeild Menntaskólans á Ísafirði sem smíðuðu lestina. Reyndar er þetta önnur lestin sem smíðuð hefur verið. Fyrri lestin var smíðuð í fyrra og notuð þá um sjómannadaginn og á Markaðsdeginum í Bolungavík við miklar vinsældir yngstu kynslóðarinnar. Lestin var svo lánuð til Stykkishólms og notuð þar á dönskum dögum. Úr var að Stykkishólumur keypti lestina og  Bolungavíkurkaupstaður lét smíða aðra fyrir sig.

Lestin samanstendur af átta tunnum á hjólum og eru öryggisbelti í hverri tunnu. Einn farþegi eru í hverri tunni. Lestin var dregin af  sexhjóli.

Reynt var að fá skýringar hjá Lögreglunni á Vestfjörðum, en þar náðist ekki samband við neinn.

DEILA