Bjartari tímar framundan ?

Það hefur vakið athygli hvernig Kristinn H. Gunnarsson, eigandi og ritstjóri bb.is, hefur undanfarna mánuði fjallað um „stóru málin“ í hugum Vestfirðinga.

Stóru málin eru að sjálfsögðu fiskeldi í vestfirskum fjörðum og þá sérstaklega í Ísafjarðardjúpi, vegamál þar sem hæst hefur borið vegalagning um Teigsskóg og raforkumál á Vestfjörðum þar sem virkjun Hvalár í Ófeigsfirði hefur verið helsta umræðuefnið.

Um þessi stóru mál hafa allflestir Vestfirðingar verið sammála og telja að þau geti skipt sköpum um framtíð mannlífs á Vestfjörðum. Afgreiðsla þessara mála, m.a. í ríkisstjórn og á Alþingi, hefur valdið miklum vonbrigðum og er ekki ásættanleg.

Megin ástæðan virðist vera sú, að Alþingi samþykkti á sínum tíma lög um stofnanir, sem áttu að vera ráðgefandi í sínum málaflokkum, en hafa í reynd komið í veg fyrir að  póitískur vilji „stjórnvalda“ næði fram að ganga.

Hér skulu sérstaklega nefndar Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Hafrannsóknarstofnun, sem virkað hafa  á almenning sem æðstidómstóll í framfaramálum landsmanna.

Fréttir síðustu daga hafa þó vakið bjartsýni og von um að alþingismenn og ríkisstjórn nái vopnum sínum og sýni hvaða einstaklingar íslenska þjóðin hefur kosið til forustu í pólitískum álitamálum í almennum kosningum.

Fiskeldið:

Það er ánægjulegt að fylgjast með aukningu fiskeldis í Skutulsfirði þessa dagana. Sjókvíum fjölgar stöðugt og umsvif aukast. Afleiddum störfum í fiskeldinu fjölgar og bjartsýni eykst. Tekjur einstaklinga og sveitarfélaga aukast og ekki veitir af, eftir samdrátt og fólksfækkun undanfarinna ára.

Ísafjarðardjúpið verður gullkista okkar Vestfirðinga þegar 70-100.000 tonn af Regnbogasilungi og laxi verða alin í Djúpinu.  Færeyingar framleiða um 70.000 tonn af laxi nú þegar og hefur laxeldið skipt sköpum í fjárhagslegri stöðu eyjanna.

Nú, og þó fyrr hefði verið,þarf að afgreiða umsóknir um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi, sem beðið hafa afgreiðslu í stofnunum þeim sem minnst var á hér að framan.

Hvað er handhægara í samdrætti gjaldeyristekna, m.a. í loðnubresti. en stórauka möguleikana í fiskeldi. Fiskeldið gengur ekki á nokkurn hátt á rétt annarra, það kollvarpar ekki núverandi stjórnkerfi  fiskveiða við Ísland, það verður kærkomin viðbót fyrir þjóðarbúið.

Vegamál:

Langavitleysan varðandi vegarlagningu um Teigsskóg sýnir vel hversu vitlaus lagasetningin um Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun var.

Að kæruferli varðandi vegarlagninguna skuli hafa fengið að viðgangast langt á annan áratug  er Alþingi og ríkisstjórnum til mikillar skammar.

Það var svo fyrst í gær sem fréttir bárust af fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps, sem virðist nú loksins undirbúa framkvæmdaleyfi til handa Vegagerð ríkisins, til að hefjast handa við að nýta það fé sem ætlað hefur verið í vegarlagninguna árum saman. Það getur ekki gengið, að náttúruverndarsamtök, sem stjórnað er af fámennum hópi öfgafólks, geti haldið heilum landshluta í gíslingu og komið í veg fyrir að vilji íbúanna, Vegagerðar ríkisins, ríkisstjórnar og alþingismanna nái fram að ganga. Hér þarf snarlega að breyta lögum til að slíkt endurtaki sig ekki.

Í lögum mega ekki vera ákvæði um að kæruferli fólks, sem sumt hvert hefur engra hagsmuna að gæta, nái nánast út yfir gröf og dauða.

Raforkumálin-Hvalárvirkjun:

Afstaða, einurð og framsýni oddvita heppsnefndar Árneshrepps, sem barist hefur fyrir Hvalárvirkjun, hefur vakið  mikla athygli og aðdáun. Þessi kona, sem hefur búið í Djúpavík áratugum saman, hefur skoðun á því hvað geti orðið sveitinni til bjargar. Hún hefur staðið af sér árásir öfgahópa sem telja sig þess umkomna að hafa vit fyrir heimamönnum. Öfgahópa sem vilja, að því er virðist, leggja byggðina af og stofna þjóðgarð og helst að gera alla Vestfirði að þjóðgarði.

Það voru því ánægjuleg tíðindi, sem bárust í vikunni um, að hreppsnefnd Árneshrepps hefði samhljóða ákveðið að auglýsa skipulag, sem gerir það kleyft að hefja vegagerð og rannsóknarvinnu vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar.

Öllum, sem fylgst hafa með, er ljóst að úrbóta er þörf í raforkumálum Vestfjarða. Það þarf að virkja í landsfjórðungnum, það þarf að auka öryggi og það þarf að verða við óskum nýrra kaupenda, sem vilja efla hér atvinnulíf. Fiskeldið og vinnsla kalkþörunga þarf  t.d.á  aukinni raforku að halda, mikilli orku sem ekki er til staðar í dag. Á stöðunum hér vestra, Súðavík, Ísafjarðarbæ og Bolungarvík hefur ekki verið hægt að bjóða upp á aðstöðu sem krefst mikillar orku. Það hefur hamlað uppbyggingu og leitt af sér stöðnun og fólksfækkun.

 

Í upphafi þessa greinarstúfs er minnst á lofsverðan málflutning í bb.is þar sem Þau þrjú „stóru málin“ eru rökstudd af fjölda fólks. Margt af þessu fólki er er hámenntað í sínu fagi, doktorar og fræðimenn t.d. í fiskeldismálum.

Fiskeldið getur gert Vestfirði að stórveldi í sjávarútvegi, eins og var hér áður. Þar mega ekki nokkrir laxar úr Ísafjarðará og Laugardalsá ráða úrslitum.

Það er meira í húfi. Minni hagsmunir verða að víkja fyrir meiri. Að ekki sé nú minnst á þann möguleika að efla atvinnulíf og mannlíf í sveitarfélögum, sem    hafa háð varnarbaráttu allt of lengi.

Að lokum er skorað á alþingismenn N.Vesturkjördæmis , sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum og hinn almenna borgara ,að láta til sín heyra, en sitja ekki hljóðir, þegar slík stórmál eru á ferðinni, sem fjallað hefur verið um hér  að ofan.

 

Magnús Reynir Guðmundsson,

fv. bæjarritari á Ísafirði og stjórnarmaður í Stangaveiðifélagi Ísfirðinga.

DEILA