Bæjarstjóri: hækkunin jákvætt merki

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir að þessi 10% hækkun fasteignamats 2020 í sveitarfélaginu frá 2019 sé jákvætt merki.

„Þetta er með því allra mesta sem þekkist hjá sveitarfélögum fjarri höfuðborginni um þessar mundir. Hér njótum við ekki nábýlis við höfuðborgina og erum því að horfa á aðrar breytur og aðra hvata á bakvið þessar hækkanir en til dæmis á Akranesi eða á Suðurnesjum.

Þetta endurspeglar ákveðna trú á samfélögin hér og bjartar horfur. Það er enginn vafi. Það er líka gott að sjá hækkun í öllum byggðarkjörnum. 8% hækkun á Flateyri kemur okkur ekki á óvart. Þar hefur eftirspurn verið mikil undanfarin ár og sjaldgæft að sjá eignir auglýstar til sölu þar.

En heilt yfir þá hefur verið vaxandi eftirspurn eftir húsnæði í sveitarfélaginu undanfarin misseri. Það skortir klárlega eignir á sölu, bæði fjölbýli og sérbýli og það geta fasteignasalar staðfest. En það er einmitt þessi staða sem Ísafjarðarbær er að mæta með því að reisa fjölbýlishús við Sindragötu og selja á frjálsum markaði. Koma hreyfingu á markaðinn og fjölga eignum sem kallað er eftir. Við finnum fyrir gríðarlegum áhuga á þessum íbúðum og fáum fjölmargar fyrirspurnir í viku hverri. Við vitum af mörgum sem bíða þess nú í ofvæni að íbúðirnar fari í sölu en það mun einmitt gerast á allra næstu dögum.“

DEILA