Árvaki kominn í árnar í Djúpinu

Fyrirstöðuþrep í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi. Teljarinn er staðsettur í hólfinu ofan við þrepið. Mynd: Hafrannsóknarstofnun.

Ragnar Jóhannsson, efnaverkfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, sem hefur umsjón með áhættumati um erfðablöndun laxastofna segir að svonefndur árvaki sé kominn í þrjár ár í Ísafjarðardjúpi, Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá. Þar sem tvær síðastnefndu árnar hafa sameiginlegan árós eru árvakarnir tveir en ekki þrír.

Ragnar segir að markmiðið sé að fylgjast með grunnþáttum þeirra stofna sem árnar fóstra, finna strokulaxa úr eldi og greina og skrá magn af laxalús á fiskum.

Árvakinn er reyndar kallaður  fyristöðuþrep í fréttatilkynningu Hafrannsóknarstofnunar  og er það staðsett er neðarlega í Langadalsá við Ísafjarðardjúp.

Fyrirstöðuþrepið er um 40 m langt og er hannað af Vífli Oddssyni verkfræðing á teiknistofunni Óðinstorgi ehf. í samráði við Hafrannsóknastofnun.  Nýjum myndavélateljara frá Pentair/Vaki var komið fyrir í teljarastíflu í mannvirkinu og eru þrjú þrep neðan við teljarann til að auðvelda fiski uppgönguna.  Teljarinn telur göngufiska og tekur mynd af hverjum fiski sem á leið upp ána. Með þessum búnaði og út frá veiðitölum er ætlunin að meta heildarstofnstærð laxa í ánni.  Fyrirhugað er að teljarinn verði í virkni á þeim tíma sem von er á gögnum laxfiska úr sjó eins langt fram eftir hausti sem von er á fiski og unnt er vegna aðstæðna.  Með nýja búnaðinum er mögulegt að tegundagreina og stærðarmæla einstaka fiska sem ganga í ána. Einnig er hægt að greina ytri eldiseinkenni, s.s. eydda ugga, ef laxar sem sloppið hafa úr sjókvíaeldi ganga um teljarann og unnið er að því að hægt verði að meta magn laxalúsa á fiskinum.

Undirbúningur framkvæmdanna hefur staðið yfir frá því á síðasta ári og eru þær kostaðar af Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Fyrirtækið Vestfirskir Verktakar önnuðust framkvæmdina.

Kostnaðurinn við árvakana tvo í Ísafjarðardjúpi og tvo aðra, á Krossá á Skarðsströnd og Vesturdalsá í Vopnafirði er samtals 40 milljónir króna.

 

Verið er að setja upp teljara í Korpu og Gljúfurá um þessar mundir.  Alls verða settur upp árvaki í 12 ám samkvæmt plani og er ætlunin að setja teljara í þrjár ár á ári. Ekki eru fleiri árvakar áformaðir á Vestfjörðum.

DEILA