Arctic Sea Farm tekur nýjan fóðurpramma í notkun: Molduxi

Fóðurpramminn Molduxi.

Arctic Sea Farm hefur tekið í notkun nýjan fóðurpramma í Patreksfirði og hefur hann hlotið heitið Molduxi og er systurprammi Mýrarfells í Dýrafirði.

Nýi fóðurpramminn er þannig útbúinn að „leitast við því að nýta fóðrið á sem bestan máta og gæta þess að ekki sé fóðrað umfram það sem fiskurinn þarfnast til að vaxa og dafna á heilbrigðan hátt. Með þeim hætti enda fóðurleifar síður á botni sjávar eða á botni kvíar sem er liður í því að halda svæðinu eins hreinu og völ er á ásamt því að standast kröfur hins stranga umhverfisstaðals ASC“ segir í fréttatilkynningu.

„Fiskeldisgreinin hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár og vaxið til allra átta, jafnt til framleiðslu og tækniframfara, sem styrkir fiskeldisfyrirtæki í að viðhalda sjálfbærri og umhverfisvænni matvælaframleiðslu til framtíðar.“

Molduxi er af gerðinni AC 450 comfort, framleiddur af Akva Group í Póllandi og tekur heil 450 tonn af fóðri, er með átta fóðursíló og átta fóðurkerfi sem þýðir að pramminn getur fóðrað allar kvíar Arctic Sea Farm í Patreksfirði samtímis.

Molduxi er búinn glæsilegu þráðlausu myndavélakerfi, en myndavélar eru staðsettar bæði á og ofan í kvíum sem gerir starfsmönnum kleift að fylgjast með bæði fóðrun og ástandi fisksins. Í prammanum má finna stjórnstöð, skrifstofurými, fyrsta flokks starfsmannaaðstöðu með snyrtingu, sturtu, eldhúsi og verkstæði.

Nafnið dregur Molduxi af kletti eða skúta út með Tálknanum í Patreksfirði sem heimamenn þekkja vel til og segir í tilkynningu frá Arctic Sea Farm að nafnið hafi mikla þýðingu fyrir Arctic Sea Farm sem leggur mikið í að starfa í sátt við samfélagið og umhverfið.

 

 

 

DEILA