20% af vinnuafli á Vestfjörðum eru innflytjendur

Bolungavík. Mynd: Benedikt Sigurðsson.

Innflytjendur voru 20% af starfandi með lögheimili á Vestfjörðum í lok síðasta árs. Alls voru 3.953 starfandi og þar af voru 797 innflytjendur samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands.

Það má einnig segja að það hafi þurft að sækja sem svarar 25% af innlenda vinnuaflinu til útlanda til þess að vinna störfin. Alls voru 3.156 starfandi á Vestfjörðum með íslenskan bakgrunn og 797 starfandi til viðbótar eru skráðir sem innflytjendur.

Hæst var hlutfallið í Bolungavík. Þar vor í lok ársins 2018 starfandi 151 innflytjandi og 384 með íslenskan bakgrunn. Samtals voru starfandi 535. Hlutur innflytjenda í heildarfjölda starfandi var 28%.  Önnur leið til þess að orða þetta að í Bolungavík það hefur þurft að auka um 40% við innlenda vinnuaflið til þess að manna störfin.

Í Ísafjarðarbæ er hlutfall innflytjendanna 20% af vinnuaflinu, í Tálknafirði 19%, í  Vesturbyggð 22% og í Súðavík er hlutfallið næsthæst á Vestfjörðum eða 25%.

Annars staðar eru fáir innflytjendur á vinnumarkaðnum og í Árneshreppi er það enginn.

DEILA