Undir forystu Súgfirðingsins Eyþórs Eðvarðssonar hefur Votlendissjóðurinn náð töluverðum árangri í aðgerðum í loftslagsmálum.
Orkan og Votlendissjóðurinn hafa undirritað þriggja ára samning um kolefnisjöfnun alls reksturs Orkunnar. Undir reksturinn telst allur akstur og flugferðir innan starfseminnar, notkun á vatni, hita og rafmagni og meðhöndlun sorps. Með því tekur Orkan samfélagslega ábyrgð en jafnframt er markvisst unnið að því að minnka kolefnisspor hennar.
Votlendissjóðurinn vinnur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.
Um 66% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi stafar frá framræstu votlendi. Undir 20% þessa landsvæðis er í notkun og því má stöðva losun gróðurhúsalofttegunda frá gríðarstóru landsvæði án þess að ganga á hagsmuni nokkurra. Endurheimt votlendis er áhrifarík, einföld og ódýr leið, sem byrjar strax að skila árangri.
Með samningi Votlendissjóðsins og Orkunnar er stigið mikilvægt skref í þessari vegferð. Það er von beggja samningsaðila að sem flestir fylgi í kjölfarið og ljái þessu mikilvæga verkefni aðstoð sína með því að kolefnisjafna sig í gegnum sjóðinn, bjóða fram framræst land til endurheimtar eða einfaldlega með samtali.
Már Erlingsson, aðstoðarforstjóri Skeljungs, eiganda Orkunnar:
Á síðustu misserum hefur Orkan farið í gegnum mikla naflaskoðun og sett sér nýja samfélagsábyrgðarstefnu sem snýr að því að að takmarka eins og mögulegt er neikvætt fótspor hennar. Því var tekin sú ákvörðun að nýta krafta félagsins til að styðja við málefni er snúa beint að loftlagsmálum. Við erum gríðarlega stolt af því að fá að leggja því góða starfi sem á sér stað hjá Votlendissjóðnum lið. Starfsemi þeirra bæði dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda og endurreisir það vistkerfi sem þrífst í votlendinu.
Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins:
Við erum afar ánægð með að fá Orkuna til liðs við okkur. Starfsfólk Orkunnar hefur sýnt starfsemi sjóðsins mikinn áhuga og við hlökkum til nánara samstarfs við þau.