Vesturbyggð: ársreikningur 2018 afgreiddur

Bíldudalur við Arnarfjörð

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt ársreikning 2018.

Rekstrarniðurstaða ársins varð um 130 milljónum króna lakari en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrartekjur A og B hluta bæjarsjóðs voru 1.486 millj. kr., þar af voru 1.302 millj. kr. vegna A hluta. Samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta bæjarsjóðs var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 96 millj. kr. en í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 35,7 millj. kr.

Fjárfest var á árinu fyrir 154 millj. kr. í fastafjármunum og tekin voru ný lán á árinu 2018 að fjárhæð 378 millj. kr. Afborganir langtímalána námu 153 millj. kr. en stærsti hluti lántöku var vegna skuldbindingar sem Vesturbyggð þurfti að taka á sig vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð, eða um 167 millj. kr.

Skuldir 2 milljarðar króna

Skuldir A hluta námu í árslok 2018 1.432 millj. kr., heildarskuldbindingar (A og B hluta) námu um 1.973 millj. kr. og höfðu hækkað um réttar 283 millj. kr. frá árinu 2017.

Skuldaviðmið var 109% í árslok 2018 og er óbreytt frá árslokum 2017.

Lakari afkoma ársins skýrist af auknum launakostnaði m.a. í grunn- og leikskólum Vesturbyggðar, auknum sérfræðikostnaði, lakari afkomu hafnarsjóðs og hækkun fjármagnskostnaðar. Þá hafi einstaka framkvæmdir farið fram úr fjárhagsáætlun 2018, og var brugðist við því með því að draga úr öðrum framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru í sveitarfélaginu það ár.

DEILA