Vel heppnaður vorþytur Tónlistarskóla Ísafjarðar

Frá tónleikunum í gærkvöldi. Myndir: aðsendar.

Vorþytur Tónlistarskóla Ísafjarðar var í gærkvöldi, en VORÞYT, en þá blása lúðrasveitir Tónlistarskólans vorið í bæinn.

Á tónleikunum komu fram tvær lúðrasveitir: Skólalúðrasveit T.Í. sem skipuð er nemendum skólans og Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar sem er skipuð blásurum á ýmsum aldri. Dagskráin á tónleikunum var mjög fjölbreytt og hljómuðu lög eftir Rolling Stones, Blondie, Whitney Houston, Asia, Boney M o.fl. í útsetningu Madisar Mäekalle.

Dagný Arnalds, aðstoðarskólastjóri var ánægð með tónleikana og sagði að þeir hefðu heppnast mjög vel. „Lúðraþyturinn var glæsilegur í gær og var mikil stemmning og gleði í loftinu.“

Madis Mäekalle útsetti fjölbreytta og skemmtilega dagskrá í tilefni dagsins og fóru sveitirnar á kostum. Þeim var vel tekið af tónleikagestum sem dilluðu sér margir í sætunum.  Ingunn Ósk Sturludóttir, skólastjóri hafði á orði að það væri ekkert sveitarfélag alvöru nema geta státað af sveit sem þessari, enda kemur lúðrasveitin víða við í samfélaginu og glæðir það lífi og fjöri.

Eftir tónleikana var öllum boðið upp kaffi og gos og Dagný sagði að það hefði verið gaman að geta staldrað aðeins við og spjallað.

DEILA