Veiga komin til Arnarstapa

Mynd: Veiga Grétars.

Veiga Grétars kom til Arnarstapa á mánudagsmorgun eftir að hafa róið fyrir Öndverðanesið um nóttina. Spáð var leiðindaveðri og Veiga sagðist í samtali við Bæjarins besta hafa ákveðið að nota góða veðrið um nóttina til þess að komast áfram áður en veðrið spilltist. Hún var komin í Dritvík um kl fjögur um nóttina. Á ferðabloggi sínu skrifar Veiga:

„Að róa fyrir Svörtuloft var mögnuð upplifun en hefði ég viljað hafa betra skyggni en það var byrjað að rökkva aðeins þó svo að það sé ekki myrkur lengur á nóttinni en samt gat maður séð bjargið ágætlega sem var drungalegt og það fór alveg smá hrollur um mig þegar ég horði í bjargið, hlustaði á þungar drunurnar þegar hafaldan skall í bjarginu og kastaðist nokkra metra upp í loftið og hugsaði til þess að ég væri ein að þvælast hérna um miðja nóttu.“

Óvíst er hvenær hægt verður að halda ferðinni áfram, en Veiga segir að næsti áfangi eru Búðir og síðan með landinu til Akraness.

Veiga segir vera búin að róa 400 km og sitja í 70 klst, „ég er komin með sigg í lófana“.

„Mér er alls staðar vel tekið og fólk er boðið og búið að aðstoða mig“ segir Veiga Grétars.

Hún segir að áætlunin sé að róa hringinn í kringum landið án þess að gera sérstakt hlé á ferðinni að öðru leyti en því sem veður og vindar stjórna.

Veiga Grétar er að safna áheitum fyrir samtökin Pieta. Hún segir að það komi inn framlög jafnt og þétt og er þakklát fyrir það. „Hver króna skiptir máli og vonandi skiptir minn róður samtökin máli“ segir Veiga að lokum.

Mynd: Óskar Páll Sveinsson.

DEILA