Tíðarandi í teikningum

Safnahúsið Ísafirði. Mynd : Kristinn H. Gunnarsson.

Mánudaginn 6. maí kl. 17 opnar ný sýning í sal Listasafns Ísafjarðar í Safnahúsinu. Á sýningunni eru frumrit myndverka sem listamenn hafa unnið fyrir íslenskar námsbækur allt frá því fyrir stofnun lýðveldisins. Frumritin hafa ekki komið fyrir sjónir almennings áður þó kynslóðir þekki efnið úr námsbókum undanfarinna áratuga. Myndirnar eru úr námsbókum sem gefnar voru út af Ríkisútgáfu námsbóka og Námsgagnastofnun og eru nú í eigu Menntamálastofnunar.

Myndirnar bera vitni um þann metnað sem lagður hefur verið í myndskreytingar námsbóka, þar sem færustu myndlistarmenn leggja hönd á plóg. Teikningarnar eru unnar innan þess ramma sem námsbókum eru settar og endurspegla jafnframt menningarlegan og þjóðfélagslegan anda sinnar tíðar.

 

Ríkisútgáfa námsbóka var stofnuð árið 1937. Á fyrstu árunum útgáfunnar báru teikningar í námsbókum keim af sjónarmiðum sjálfstæðisbaráttunnar, bændasamfélagsins og skólastefnu í árdaga lýðveldisins. Með skólaumbótum á sjöunda og áttunda áratugnum urðu áberandi sjónarmið um þátttöku einstaklingsins í lýðræðisþjóðfélagi þekkingu hans og færni í flóknu umhverfi. Námsgagnastofnun, sem tók til starfa árið 1980, var ætlað hlutverk í innleiðingu þeirra umbóta.

 

Hér er einungis um að ræða brot af teikningum í eigu stofnunarinnar en það safn nær fram á tíunda áratug síðustu aldar. Teikningar eftir íslenska listamenn eru áfram mikilvægur hluti nýrri námsbóka. Ekki er kostur að sýna teikningar úr nýrri bókum nú þar sem þær eru ekki í eigu Menntamálastofnunar en þar er ekki síður ríkur sjóður myndlistar. Hönnuður sýningarinnar er Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir.

 

Sýningin stendur uppi 6. maí – 12. júní og verður opin á opnunartímum hússins, virka daga kl. 12-18 og laugardaga kl. 13-16.

DEILA