Súðavík: ekkert ákveðið enn

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að ekkert sé óeðlilegt við að taka til endurskoðunar jafn veigamikla þjónustu eins og félagsþjónustu sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt  að leggja til endurskoðun samnings um félagsmálafulltrúa við Bolungarvík og leita eftir samstarfi við annað sveitarfélag eða leita annarra lausna. Var félagsmálanefnd sveitarfélagsins falið að taka bókunina fyrir.

Brgai Þór segir að í framhaldi af umræðum um ársreikning Súðavíkurhrepps 2018 hafi komið upp umræða á sveitarstjórnarfundinum um félagsþjónustu.  „Engin uppsögn hefur verið boðuð og ekki tímabært.  Það verður hver að skilja svo sem hann les, en ekkert er óeðlilegt við það að taka til endurskoðunar jafn veigamikla þjónustu. Mál verður sent viðkomandi nefnd til yfirferðar og umræðna, ekkert hefur verið ákveðið enn.“ segir Bragi Þór.

Ennfremur segir Bragi að endurskoðunin sé á grundvelli kostnaðar, skilvirkni og þarfa skjólstæðinga sveitarfélagsins. Ekki sé tímabært að útfæra þetta nánar, málið sé á umræðustigi.

Að sögn Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra fær Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík bréf í dag til framlagningar fyrir bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar og „þar er að finna skýringar á því hvað fram fór á fundi.“

 

DEILA