Súðavík boða uppsögn á samningi við Bolungavík

Á aukafundi í sveitarstjórn Súðavíkur, sem haldinn var á föstudaginn til þess að leggja fram ársreikning fyrir 2018 voru tekin fyrir mál undir liðnum önnur mál sem ekki voru á útsendri dagskrá. Eitt þeirra var samningur Súðavíkurhrepps við Bolungarvíkurkaupstað um félagsmálafulltrúa, en samstarf sveitarfélaganna hefur staðið í 11 ár.

Bókað var eftirfarandi:

„Sveitarstjórn leggur til endurskoðun samnings um félagsmálafulltrúa við Bolungarvík og leita eftir samstarfi við annað sveitarfélag eða leita annarra lausna. Erindi vísað til félagsmálanefndar.“

Ekkert kemur fram um það hver tók málið upp eða hvers vegna. Bæjarins besta hefur þær upplýsingar að það hafi verið nýr oddviti Samúel Kristjánsson sem bar málið upp.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík  sagðist í samtali við Bæjarins besta í gærkvöldi  ekki hafa fengið skriflega uppsögn, en segist ekki geta lesið annað úr bókuninni en að uppsögn sé væntanleg. Hann sagðist ekki vita hver orsökin er og sagðist ekki hafa orðið var við neinar skriflegar athugasemdir um samstarfið þau 11 ár sem það hefur staðið. Málið verður rætt á fundi bæjarráðs Bolungavíkur í dag.

 

DEILA