Strandveiðar hófust 2. maí

Strandveiðar hófust í síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum sem Landssamband smábátaeigenda hafa tekið saman voru 312 virk leyfi þegar í upphafi.

Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði og eru Vestfirðir á svæði A sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi til Súðavíkurhrepps, nema Strandasýsla sem er á svæði B sem nær frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps. Önnur svæði eru C og D.

Langflest eru leyfin á svæði A eða 140 talsins.

Fyrsta daginn lönduðu 54 bátar alls liðlega 40 tonnum, þar af voru 18 á svæði A og lönduðu þeir 14 tonna afla, samkvæmt yfirliti sem Landssamband smábátaeigenda tók saman.

Helmingur aflans á A svæðinu

Heildarstaðan var þannig í gærkvöldi að alls höfðu 295 strandveiðibátar landað 356 tonnum af afla. Þar af voru á svæði A 127 bátar búnir að landa 164 tonnum í 237 löndunum. A svæðið er langaflahæsta svæðið á landinu með tæplega helming alls strandveiðiaflans.

DEILA