Sjómannadagurinn

 

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt næsta sunnudag, það er þann 2. júní.  Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur þann 6. júní árið 1938.  Það voru sjómenn í tveimur helstu útgerðarbæjum landsins, sem riðu þarna á vaðið.  Þetta voru sjómenn í Reykjavík og á Ísafirði.  Frumkvæði að sérstökum sjómannadegi átti Félag íslenskra loftskeytamanna og þó einkum formaður þess, Henry Hálfdánsson.  Félagið vann að því að fá viðurkenndan sérstakan minningardag um drukknaða sjómenn og ennfremur að reistur yrði minnisvarði um sjómenn.  Sá siður að halda hátíðlegan sjómannadag fyrsta sunnudag í júní breiddist út frá Ísafirði og Reykjavík.  Og innan fárra ára var það orðin viðtekin venja í sjálvarplássum hringinn í kringum landið að halda hátíðlegan sjómannadag.  Minnisvarðar um látna sjómenn risu einnig víða.  Enda þótt sjóslysum við Íslandsstrendur hafi fækkað mikið hin síðari ár þá er sjómannadagurinn enn hátíðisdagur við sjávarsíðuna.  Messað er í kirkjum og minnst látinna félaga, blómakransar eru lagðir að minnismerkjum sjómanna.

Annað í hátíðahöldum dagsins hefur breyst í tímans rás.  Á sumum stöðum er boðið upp á skemmtidagskrá með kappróðri, koddaslag og ýmsum uppákomum.  Á öðrum stöðum er fólki boðið í siglingu á hinum stærri fiskiskipum.  Víða eru björgunarsveitir með kaffisölu til styrktar starfi sínu á þessum degi.  Já, og svo má ekki gleyma sjómannadansleikjum á laugardagskvöldinu.

Á Ísafirði verður venju samkvæmt boðið upp á siglingu á laugardeginum.  Þá er það sérstakt gleðiefni að í ár fögnum við nýjum björgunarbáti, sem keyptur var erlendis og siglt hingað til lands frá Noregi með viðkomu í Færeyjum.  Störf slysavarnarfélaga og björgunarsveita eru ómetanleg.

Sjómennska er enn undirstaða byggðar á Vestfjörðum.  Auk hefðbundinna fiskveiða og fiskvinnslu þá hefur bæst við fiskeldi í sjókvíum og vonandi mun það aukast á næstu árum.  Þá hafa verið stofnuð ný fyrirtæki til að vinna úr sjávarafurðum nýjar vörur.  Hér mætti til dæmis benda á fyrirtækið Kerecis, sem hefur búið til sárasmyrsl og fleiri lækningavörur úr fiskroði og hráefnum úr fiski.  Fiskroð er til margra hluta nytsamlegt.  Í gamla daga gerði fólk skó úr roðinu en í nútímanum hafa snjalllir men sútað til dæmis steinbítsroð og notað það í áklæði á húsgögn með mjög góðum árangri.

Nýjasta tegund sjómennsku eru siglingar með ferðamenn.  Nú er svo komið að meira en 100 skemmtiferðaskip leggja leið sína til Vestfjarða á hverju ári.  Sum þessara skipa eru með nokkur þúsund erlenda ferðamenn um borð og þegar þeir koma í land þá breytist sjávarpláss eins og Ísafjörður um stund í erlenda stórborg með iðandi mannlífi þar sem erlend tungumál hljóma á vörum fólks á hverju götuhorni.  Þá hafa íslensk fyrirtæki einnig boðið upp á skoðunarferðir um víkur og voga Vestfjarða enda eru hér margar náttúruperlur og margt fyrir forvitin augu að sjá.

Íslenskur sjávarútvegur er í stöðugri þróun.  Til hamingju með daginn sjómenn.  Þið hafi unnið landi og þjóð ómetanlegt gagn.

 

Magnús Erlingsson.

DEILA