Reykvíkingar telja Hvalárvirkjun góða fyrir Vestfirði en eru samt á móti

Fréttaskýring:

Þegar rýnt er í könnun Gallup, sem unnin var fyrir Vestfjarðastofu og birt í gær, koma athyglisverðar staðreyndir í ljós.

Stuðningur við Hvalárvirkjun er yfirgnæfandi meiri í öllum kjördæmum landsins öðrum en Reykjavík. Munurinn er frá 15% upp í 28% sem stuðningurinn er meiri en andstaðan. Í grófum dráttum er stuðningurinn tvöfalt meiri en andstaðan. Í Reykjavík er hins vegar stuðningurinn 32% en andstaðan 43%.

Afstaða Reykvíkinga er á hinn bóginn mjög jákvæð þegar metin eru áhrifin af Hvalárvirkjun á samgöngur, búsetu, atvinnuuppbyggingu og raforkumál á Vestfjörðum.

Þannig telja 53% svarenda í Reykjavík að Hvalárvirkjun hafi góð áhrif á búsetu á Vestfjörðum. Einungis 9% í Reykjavík telja áhrifin slæm. Þannig að það er yfirgnæfandi mat Reykvíkinga, samkvæmt könnuninni, að virkjunin muni vera góð fyrir búsetu á Vestfjörðum. En samt eru fleiri svarendur í Reykjavík á móti virkjuninni en með henni.

Svipað kemur í ljós þegar skoðuð eru svörin við þremur öðrum spurningum um áhrif virkjunarinnar fyrir Vestfirðinga.

59% Reykvíkinga telja Hvalárvirkjun hafa góð áhrif á atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðun, en aðeins 6% telja að áhrifin verði slæm. Þegar kemur að samgöngum telja 57% Reykvíkinga að virkjunin hafi góð áhrif á Vestfjörðum og aðeins 6% telja þau áhrif verða slæm. Loks telja 64% Reykvíkinga að Hvalárvirkjun hafi góð áhrif á raforkumál á Vestfjörðum og 11% telja þau áhrif verði slæm.

Í öllum tilvikum er það mat svarenda í Reykjavík að Hvalárvirkjun muni hafa yfirgnæfandi góð áhrif á Vestfjörðum( hlutföllin eru sex til níu sinnum fleiri), á búsetu, atvinnuuppbyggingu, samgöngur og raforkumál, en samt eru þeir á móti virkjuninni.

Það vekur upp spurninguna: af hverju vilja svo margir svarendur í Reykjavík koma í veg fyrir góð áhrif á veikasta búsetusvæði landsins og koma í veg fyrir gæði sem Reykvíkingar sjálfir búa nú þegar við og hafa gert lengi?

Könnunin svarar því ekki og það býður betri tíma að fá svar við henni. Þannig væri forvitnilegt að vita hvort andstæðingarnir vilji færa Vestfirðingum annað sem sé jafngilt fyrir svæðið í góðum áhrifum á búsetu, samgöngur, atvinnuuppbyggingu eða raforkuörygg og hvað gæti það verið?  Eða hvort andstæðingunum í Reykjavík  sé sama um fólkið á Vestfjörðum, vilji fá sínu framgengt með tilheyrandi missi fyrir Vestfirðinga á framförum sem myndu koma með Hvalárvirkjuninni. Ekkert hefur komið fram í málflutningi þeirra sem leggjast gegn Hvalárvirkjun að til boða standi aðrir raunhæfir kostir í staðinn.

Það er merkilegt í ljósi þess að Reykvíkingar virðast vera mjög sammála um að Hvalárvirkjun muni hafa góð áhrif á Vestfjörðum.

Þessi könnun sýnir að stuðningurinn við Hvalárvirkjun er mikill og tvöfalt meiri en andstaðan víðast hvar og hún sýnir líka vísbendingar um að þar, sem andstaðan er mest, er viðurkennt að virkjunin hefur góð áhrif fyrir Vestfirðinga. Það ætti þá að vera næsta skref að fá fram hvað andstæðingarnir vilja leggja á sig til þess að góðu áhrifin verði, en án virkjunar. Þeir sem eru á móti geta ekki ætlast til þess að skaða hagsmuni heils fjórðungs bótalaust.

-k

 

DEILA