Orkubú Vestfjarða vinnur málið gegn Ísafjarðarbæ

Teikning af fyrirhuguðu stöðvarhúsi.

Héraðsdómur Vestfjarða hefur kveðið upp dóm í máli sem Orkubúið höfðaði gegn Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf.

Vildi orkubúið að að viðurkenndur yrði með dómi að allur réttur til virkjunar vatnsafls, fallvatns, í Úlfsá í Dagverðardal, Ísafirði, Ísafjarðarbæ, væri eign Orkubús Vestfjarða ohf. og að samningur á milli Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf. um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá á Dagverðardal, dags. 24. janúar 2018, verði ógiltur.

Ísafjarðarbær krafðist sýknu  af öllum kröfum stefnanda en við aðalmeðferð málsins varð útivist af hálfu stefnda AB-Fasteigna ehf., sem hefur kosið að láta málið ekki til sín taka.

Í janúar 2018 heimilaði stefndi Ísafjarðarbær með samningi AB-Fasteignum ehf. að rannsaka vatnasvið og hagkvæmni hugsanlegrar virkjunar í Úlfsá og nýta  vatnsréttindi þau sem Ísafjarðarbær ætti í Úlfsá tilvirkunar í Úlfsá og reka Úlfsárvirkjun. AB-Fasteignum ehf. voru þá leigð vatnsréttindi og landnot til 25 ára eftir að Úlfsárvirkjun tæki til starfa, með forleigurétti að þeim tíma loknum. Orkubú Vestfjarða taldi sig lögmætan eiganda réttindanna sem eru í samningi milli Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf.

Héraðsdómurinn viðurkennir að Orkubúið eigi allan rétt til virkjunar  og ógildir samninginn milli Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta í gær að fyrirhugaður væri fundur með lögmanni til þess að ræða framhaldið og vildi ekki frekar svara til um viðbrögð bæjarins.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri sagði að framhald málsins væri að því leyti óljóst á þessu augnabliki, að afstaða Ísafjarðarbæjar til dómsins liggur ekki fyrir.

En um dóminn sagði Elías:

„Niðurstaða dómsins er afgerandi – þar er fallist á allar dómskröfur Orkubús Vestfjarða.  Í fyrsta lagi að allur réttur til vikjunar vatnsafls, fallvatns, í Úlfsá á Dagverðardal sé eign Orkubús Vestfjarða. Í öðru lagi að samningur á milli Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá á Dagverðardal dags. 24. janúar 2018 verði ógiltur og í þriðja lagi er fallist á að Ísafjarðarbær greiði Orkubúi Vestfjarða málskostnað.

Orkubú Vestfjarða undirritaði þ. 5. mars sl. samkomulag við AB-Fasteignir ehf (ABF) um að ljúka ágreiningi á milli félaganna um málið, sem upphaflega var höfðað bæði gegn Ísafjarðarbæ og ABF.  Í samkomulaginu fólst einnig að verði endanleg niðurstaða dómsmálsins þessi, þá eigi það ekki að hafa áhrif á réttindi ABF til að nýta vatnsréttindi Úlfsár vegna reksturs á virkjun samkvæmt virkjunarleyfi frá Orkustofnun, gegn hliðstæðum greiðslum til OV og fram komu í samningi félagsins við Ísafjarðarbæ og munu aðilar undirrita sjálfstæðan samning um þá nýtingu ABF á fallvatni Úlfsár.“

DEILA