Ölver í Ósvör

Ölver kominn í sátrið í Ósvör. Mynd: Helgi Hjálmtýsson.

Sexæringurin Ölver fékk upplyftingu í vikunni og síðan var honum róið í gær af miklu kappaliði í ægifögru veðri yfir Bolungarvíkina yfir í Ósvör þar sem hann var dreginn upp á hvalbeinahlunnum í sátrið sitt. Lendingin gekk vel enda kunnáttumaðurinn Jóhann Hannibalsson, safnvörður, við stjórn. Það verður að fara réttu meginn við Vararkoll og eins nálægt honum og hægt er, því annars er voðinn vís, sagði Jóhann, þegar kom að lendingunni.

 

Ölver var smíðaður árið 1941 af Jóhanni Bárðarsyni skipasmið frá Bolungarvík og var hann smíðaður samkvæmt gömlu bolvísku lagi. Bolvíska lagið byggði á góðri sjóhæfni, bátarnir voru hraðskreiðir, létt rónir, góðir til siglinga og léttir og stöðugir í lendingu.

 

Ölver er í eigu Byggðasafns Vestfjarða á Ísafirði en eyðir sumrum í uppsátrinu í Ösvör í Bolungarvík, safngestum til ánægju.

DEILA