Nýtt björgunarskip á Ísafjörð væntanlegt

Hið nýja björgunarskip Ísfirðinga.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur skrifað undir kaupsamning um kaup á norska björgunarskipinu RS Skuld og mun það leysa björgunarskipið Gunnar Friðriksson á Ísafirði af hólmi. Nýja skipið hefur mun meiri ganghraða en forveri þess eða um 25 sjómílur á móti 16-17 sjómílum auk þess sem það er búið dráttarkróki, krana, öflugum brunadælum o.fl. Aðstaða fyrir sjúklinga og áhöfn er auk þess mun betri.

Gauti Geirsson er formaður Björgunarbátasjóðs SL á Ísafirði: „ Gamla skipið, Gunnar Friðriksson hefur staðið sig vel síðustu 10 ár en með þessu nýja skipi erum við bæði að auka viðbragðsgetu okkar og fá í hendurnar öflugra björgunarskip með meiri björgunarútbúnaði en við höfum haft. Þess má geta að björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal hafa nýverið endurnýjað harðbotna björgunarbátinn sinn og Björgunarsveitin Ernir er nýbúin að fá í hendurnar hraðskreitt og öflugra björgunarskip í Bolungarvík. Það má því segja að sjóbjargir við Ísafjarðardjúp hafi tekið risastökk fram á við núna síðastliðið hálfa árið en til þess er auðvitað leikurinn gerður, að stytta viðbragðstíma og þar með öryggi sjómanna og ferðamanna á svæðinu.“

Nýja skipið verður nefnt eftir fræknum björgunarmanni við Ísafjarðardjúp, Gísla Jónssyni. Gísli leiddi björgunarmenn frá Hesteyri árið 1955 að togaranum Agli Rauða í aftakaveðri með björgunarbúnað þar sem 16 af skipverjum togarans var bjargað í land við afar erfiðar aðstæður. Gísli ólst upp á Sléttu, rétt hjá strandstaðnum, og var því vel staðkunnugur en þess má geta að hann var einungis 18 ára þegar hann leiddi þessa miklu björgun. Gísli var búsettur í Skutulsfirði alla tíð eftir flutningana frá Sléttu og liðsinnti slysavarnardeildum og björgunarsveitum á svæðinu með margvíslegum hætti allt sitt líf, en hann lést árið 2013.

Gauti segir að það styttist í heimsiglingu: „Nú er verið að ganga frá skráningarmálum og fleiru en við stefnum á að sigla skipinu heim til Ísafjarðar frá Bodø í Noregi síðari hluta maí mánaðar. Ef allt gengur eftir getum við vígt skipið á sjómannadaginn á Ísafirði.“

Þeir sem vilja taka þátt í að styrkja kaupin á björgunarskipinu er bent á að reikning björgunarbátasjóðsins. Allar styrkupphæðir eru vel þegnar: Kt. 690597-2099 Banki: 0154-26-2534.

DEILA