Norðanverðir Vestfirðir: samstarf slökkviliða til skoðunar

Bæjarráð æIsafjarðarbæjar hefur óskað eftir því við Bolungavíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp að teknar verði upp viðræður um samstarf slökkviliða sveitarfélaganna þriggja.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri var inntur eftir því hver væru markmiðin.

„Við erum sífellt að skoða hvort og hvernig við getum gert hlutina betur og þá, eftir atvikum, í nánara samstarfi við nágrannasveitarfélögin. Það á við um þennan málaflokk eins og aðra.

Samstarf sveitarfélaga á svæðinu er nú þegar mjög gott á mörgum sviðum og ástæða til að skoða hvort ekki sé hægt að flétta fleiri mál inn í það mengi.  Samstarf slökkviliða á svæðinu hefur verið til skoðunar af og til síðustu 10 ár, að minnsta kosti. Einhverra hluta vegna hefur sú vinna ekki skilað tilætluðum árangri. En þá er bara að halda áfram og koma málinu aftur af stað. Ég er alla vega á því að við íbúar við Djúp séum alltaf sterkari saman, sérstaklega þegar kemur að málaflokkum sem hafa með öryggi og almannaheill að gera. Það er margsannað.

Við höfum verið að auka samstarf almannavarnanefnda á svæðinu. Þar hafa Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur verið í samstarfi um hríð og nýlega var þess farið á leit við Bolungarvíkurkaupstað að ganga inn í það samstarf. Það er mikilvægt skref og tímabært. Við erum að taka málefni slökkviliðanna upp í beinu framhaldi af því.

Ég mun óska eftir fundi með Bolvíkingum og Súðvíkingum.  Aðallega svo við getum áttað okkur betur á stöðunni og vonandi sett okkur einhver mælanleg markmið. Ég á ekki von á öðru en að því verði vel tekið.“

DEILA