Ársfundur Náttúrustofu Vestfjarða var haldinn á Þingeyri 10. maí síðastliðinn. Í árskýrslu stofnunarinnar kemur fram að síðasta ár einkenndist af breytingum.
Í byrjun árs voru skrifstofurnar í Bolungarvík og á suðursvæði Vestfjarða fluttar um set. Skrifstofan í Bolungarvík var flutt í endurnýjað húsnæði í Ráðhúsi Bolungarvíkur þar sem hún er á sömu hæð og Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða og Arnarlax. Skrifstofan á suðursvæðinu flutti frá Skrímslasetrinu á Bíldudal í rannsóknarsetrið Skor á Patreksfirði og er þar ásamt fleiri stofnunum eins og Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Umhverfisstofnun og Vestfjarðastofu.
Náttúrustofa Vestfjarða hóf starfsemi í ársbyrjun 1997 og er árið 2018 því tuttugasta og annað starfsárið. Stofan starfar núna á þremur starfsstöðvum á Vestfjörðum, í Bolungarvík, á Hólmavík og á Patreksfirði. Við stofnunina starfa 8 starfsmenn auk sumarstarfsmanna.
Hulda Birna Albertsdóttir hefur verið starfandi forstöðumaður í leyfi Nancy Bechtloff.
Stjórnin er skipuð Smára Haraldssyni, líffræðingi sem er formaður og meðstjórnendur eru Sigríður Gísladóttir, dýralæknir og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Sex sveitarfélög á Vestfjörðum eiga formlega aðild að Náttúrustofu Vestfjarða: Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur og Strandabyggð.
Í skýrslu starfandi forstöðumanns kemur fram að eannsóknir fyrir Vegagerðina í tengslum við vegaframkvæmdir um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg hafi verið stór þáttur af verkefnunum þetta árið líkt og síðustu ár. Stofan fékk nokkra rannsóknarstyrki á árinu en stærstu styrkirnir voru frá Umhverfissjóði sjókvíaeldisins fyrir verkefnið ,,Grunnvöktun
fjöru Ísafjarðardjúps“ og styrkur frá fornleifasjóði fyrir verkefnið ,,Arnarfjörður á miðöldum“.
Smári Haraldsson, stjórnarformaður sagði í ávarpi sína að miklar breytingar hefðu orðið á undanförnum árum á starfsmannahaldi og umhverfi Náttúrustofunnar. Því væri mikilvægt fyrir Náttúrustofuna að endurskoða starfsemi sína. Greindi Smári frá því að stefnumótunarvinna hefði farið fram innan stofnunarinnar með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa. „Úr vinnu ráðgjafans komu gagnlegar upplýsingar, m.a. hvatti hún stofuna til að halda áfram með stefnumótunarvinnu og skilgreina skýra framtíðarsýn.
Það er mat stjórnar að nauðsynlegt sé að ljúka vissum áfanga stefnumótunarinnar fyrir lok maí nú i vor, þannig að ekki verði farið inn í sumarið í of mikilli óvissu.“
umhverfisvöktun og fiskeldi
Niðurstaða Smára var að „Það virðist augljóst að miðað við hljóðið í sveitarstjórnarfólki og atvinnulífinu eigi grunnstoðir Náttúrustofunnar að vera í umhverfisvöktun og fiskeldi. Ná þarf samningum til nokkurra ára á þessum sviðum. Stofan vinnur nú þegar að tveggja ára samningi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið um umhverfisvöktun.“