Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu gerir árlega könnun á viðhorfi starfsmanna til þeirrar stofnunar sem þeir starfa hjá. Sameyki og fjármála- og efnahagsráðuneytið eru í samstarfi um könnunina vegna ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir og fyrirtæki, bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði, segir í kynningu Sameykis um könnunina.
Könnunin nýtist stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og þá veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila. lls var 141 stofnun í flokki ríkisstofnana og sjálfseignarstofnana, en 21 í flokki sveitarfélaga og borgarstofnana. Alls fengust svör frá tæplega 13 þúsund starfsmönnum og var svarhlutfall tæplega 49%.
HVEST var í 74. sæti en nú í 40. sæti
Í fyrra náði Heilbrigðisstofnun Vestfjarða lágmarksþátttöku til að vera með í könnuninni, eftir að hafa ekki náð því árin á undan. Stofnunin var þá í 74. sæti af 82 stofnunum með 50 starfsmenn eða fleiri. Stofnunin var lægst meðal heilbrigðisstofnana og undir meðaltali þeirra í undirliðum sem mældu ánægju og stolt, ímynd stofnunar, starfsanda og stjórnun. Í ár hefur þetta breyst svo um munar og er HVEST nú í 40. sæti og hefur farið upp um 34. sæti. Hefur engin stofnun hækkað jafnmikið á þessum tíma.
„Þessar niðurstöður eru einstaklega gleðilegar og staðfesting á þeirri tilfinningu sem við höfum haft að starfsandi innan stofnunarinnar og ánægja hafi aukist og ímynd hennar og stolt starfsfólksins hafi batnað á síðustu misserum,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri.
Endurnýjun í yfirstjórn
Í júlí 2018 tók Gylfi Ólafsson við starfi forstjóra stofnunarinnar og í kjölfarið varð mikil endurnýjun í stjórnendateymi hennar. Framkvæmdastjóri lækninga, mannauðs- og rekstrarstjóri, fjármálastjóri og hjúkrunarstjóri á Patreksfirði hafa öll komið ný til starfa síðan. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er nú komin upp í meðaltal allra stofnana, og eftir að hafa verið nokkuð fyrir neðan meðaltal heilbrigðisstofnana mælist heildareinkunn nú yfir meðaltali systurstofnana. Einkum eru það undirliðirnir stjórnun, starfsandi, launakjör, ímynd stofnunar, og ánægja og stolt sem hækka milli ára.
Áfram verk að vinna
„Til að veita okkar lífsnauðsynlegu þjónustu er grundvallaratriði að starfsfólkinu líði vel. Þess vegna er það stærsta hlutverkið mitt sem leiðtoga að stuðla að því með öllum ráðum. Þessar niðurstöður eru góður millitími og sýna okkur að umbætur geta fljótt borið mælanlegan árangur, en þær sýna okkur einnig hvar skóinn kreppir og hvar við eigum að einbeita okkur á komandi misserum. Þar erum við með mörg verkefni í undirbúningi,“ segir Gylfi.