Landsnet: kynnti nýja kerfisáætlun

Frá kynningarfundi Landsnets í gær. Mynd: Steinunn Þorsteinsdóttir.

Vel var mætt á kynningafund Landsnets sem haldinn var i gær á Ísafirði. Fundargestum gafst tækifæri á að spyrja starfsmenn Landsnets og hitta fólkið sem vinnur að gerð áætlunarinnar.

Bæjarins besta ræddi við Gný Guðmundsson , starfsmann Landsnets og sagði hann að  gestir hefðu spurt mikið um tengipunktinn í Djúpinu sem greint er frá í nýju kerfisáætluninni. Eins hefði líka verið töluvert spurt um aðgerðir til að auka raforkuöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum.

Stóru tíðindin í nýju kerfisáætluninni eru þau að afhendingarstaður í Djúpinu er kominn á framkvæmdaáætlun.  Afhendingarstaðurinn  er í Miðdal á Steingrímsfjarðarheiðinni vestanverðri og hann verður tengdur við núverandi meginflutningskerfi í Kollafirði inn á Mjólkárlínu 1 (MJ1), þar sem byggt verður nýtt tengivirki.

Kostnaður er áætlað 2.275 milljónir króna og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki með spennusetningu seinni hluta árs 2024.

Við þennan kostnað bætist síðan kostnaður við línu til Hvalárvirkjunar og er heildarkostnaðurinn um 5 milljarðar króna.

Gnýr sagði að Það ylti á virkjunaráformum við Hvalá hvort af því yrði að reisa tengipunktinn. Útreikningar Landsnets benda til að virkjunin muni endurgreiða kostnaðinn með tengigjöldum á 40 árum. Endingartími mannvirkjanna er hins vegar mun lengri svo ljóst er að um arðbæra framkvæmd yrði að ræða. Gnýr Guðmundsson sagði að ábatinn yrði enn meiri ef reistar yrði fleiri virkjanir á þessu svæðu svo sem  Austurgilsvirkjun.

Kerfisáætlunin fer til Orkustofnunar og að fengnu samþykkti hennar, sem vænst er í haust, hefur hún tekið gildi.

DEILA