Knattspyrnufélagið Hörður 100 ára

Stjórn Harðar 1969.

Knattspyrnufélagið Hörður á Ísafirði er 100 ára. Stofnfundur félagsins var haldinn 27. maí 1919 í Sundstræti 41. Stofnendur voru tólf ungir Ísfirðingar: Karl, Þorsteinn og Guðbrandur Kristinssynir, Kristján og Jón Albertssynir, Hjörtur og Garðar Ólafssynir, Þórhallur Leósson, Dagbjartur Sigurðsson, Ólafur Ásgeirsson, Helgi Guðmundsson og Axel Gíslason. Þeir höfðu allir áður starfað í Fótboltafélagi Ísafjarðar, sem stofnað var 1914 og starfaði í tíu ár. Fyrsti formaður Harðar var Þórhallur Leósson og Dagbjartur Sigurðrsson og Helgi Guðmundsson skipuðu með honum fyrstu stjórnina. Knattspyrnufélagið Hörður tók strax forystu í knattspyrnumálum kaupstaðarins og átti fyrir höndum langa og gifturíka daga. Saga félagsins nær allt til þessa dags.

Stofnendur Harðar störfuðu áður í Fótboltafélagi Ísfirðinga, sem stofnað var 1914. Árið 1914 var líka stofnað á Ísafirði Fótboltafélagið Hvöt, fyrsta kvennaknattspyrnufélag landsins, sem starfaði í tvö ár. Konur hófu ekki knattspyrnuiðkun aftur fyrr en hálfri öld síðar. Deyfð var í fótboltanum eftir 1916 og svo virðist sem óánægja með störf Fótboltafélagsins hafi átt ríkastan þátt í stofnun Harðar. Helgi Guðmundsson bakari í Norska bakaríinu við Silfurgötu gagnrýndi félaga sína fyrir agaleysi og var það í fundabók Fótboltafélagsins kallað „nasablástur“. Óánægja yngri manna í félaginu leiddi til stofnunar Harðar. Helgi var mikill málafylgjumaður og einn af forystumönnum Harðar á fyrstu árum þess. Hann var formaður félagsins í áratug, 1926-1935.

Helgi bakari

Helgi Guðmundsson bakari sagði síðar frá því að Ísfirðingar hafi fyrst byrjað að æfa fótbolta árið 1902 „á Riistúninu – bak við Norskabakaríið…“ Þar er nú Skólagata og litli KSÍ-sparkvöllurinn við Grunnskólann. Helgi segir að síðar hafi strákarnir fært sig norðar á Riistúnið, út við Fjarðarstræti. Á upphafsárum fótboltans var útbúnaðurinn ekki flókinn. „Þá mættu menn til æfinganna í þeim fötum, sem þeir voru í við störf sín á daginn. Ekki voru notaðir knattspyrnuskór, enda ekki fáanlegir þá. Margir „spiluðu“ á sokkunum, en flestir á þeim skóm, sem þeir gengu á daglega – og voru þeir oft illa útleiknir að æfingum loknum.“

Kunnátta í knattspyrnu var ekki mikil á þessum árum að sögn Helga:

Sá þótti góður, sem „kýldi“ knöttinn sem lengst eða hæst, og hópuðust menn þá saman og biðu, þar til hann kom úr loftferðinni. – Urðu þá oft stimpingar og hrindingar um hann, þar til einhverjum tókst að kýla hann á ný í aðra loftferð. Mikið var hlaupið, og eltu flestir leikmenn knöttinn, hvert sem hann fór um völlinn, og þegar hann nálgaðist „gullið“, voru þar samankomnir allir leikmenn í iðandi kös í sókn og vörn, að undanteknum öðrum „gullmanninum“, sem stóð álengdar og horfði á ósköpin. (Knattspyrnufélagið Hörður 25 ára, 22).

Keppt um „Völlinn“

Fyrstu árin eftir stofnun Harðar lifnaði yfir fótboltanum í bænum. Hörður og Fótboltafélagið, sem nú kallaði sig Knattspyrnufélag Ísafjarðar störfuðu hlið við hlið og léku árlegan kappleik á 17. júní. Í leik liðanna 17. júní árið 1921 var keppt um nýjan verðlaunagrip. „Var það knattspyrnuvöllur úr marmara með uppstilltum 2 liðum.“ Á marmaraplötunni stóðu tuttugu og tveir leikmenn mótaðir úr málmi. Það var Einar Oddur Kristjánsson gullsmiður sem bjó til þennan verðlaungrip og gaf. Hörður sigraði í 17. júní leiknum árið 1921 og aftur árið eftir. Þegar leika átti í þriðja sinn 1923 dró Knattspyrnufélagið sig úr keppni og lognaðist útaf eftir þetta. Hefði Hörður unnið í þriðja sinn í röð, átti félagið að fá gripinn til eignar. Reynt var að fá Bolvíkinga til að koma og keppa um gripinn um haustið. Sendu þeir lið inn á Ísafjörð, en ekkert varð af leiknum „því svo mikil rigning var, og vatn svo mikið á vellinum, að vart þótti fært um hann í vaðstígvélum,“ sagði Jón Alberts í upprifjun í afmælisblaði Harðar. Nokkrum árum síðar var aftur keppt um þennan sérstæða verðlaunagrip á milli Ísafjarðarfélaganna Harðar og Vestra og hafði Hörður oftar sigur. Nú er ekki vitað um afdrif „Vallarins“ einsog gripurinn var kallaður.

Næstu ár voru fremur dauf í knattspyrnunni. Hörður hafði engan mótherja í bænum til að keppa við. Harðverjar urðu að skipta liði og keppa innbyrðis á 17. júní og við önnur tækifæri. Einu leikirnir þar sem reyndi á Hörð voru leikir við áhafnir danskra varðskipa og eins við danska landmælingamenn sem hér voru að störfum á þeim tíma. Það var loks árið 1926 að nýtt fótboltafélag, Knattspyrnufélagið Vestri, var stofnað á Ísafirði. Vestri varð aðalandstæðingur Harðar næstu áratugi. Og nú tók að lifna yfir Harðverjum. Þeir unnu keppnina um „Völlinn“ næstu þrjú ár í röð.

Hörð barátta

Oft var hart tekist á í leikjum Harðar og Vestra, einsog þegar kaupmaðurinn rak dómarann úr vinnu, fyrir að dæma ekki rétt. Það var árið 1928 að félögin léku á Hrossataðsvöllum, gamla fótboltavellinum við Eyrargötu á Ísafirði. Dómari leiksins var Gunnar Andrew Jóhannesson verslunarmaður og skipaði hann tvo línuverði til aðstoðar við dómgæsluna. Þegar leikurinn stóð sem hæst vék Ólafur Kárason kaupmaður öðrum línuverðinum frá, tók af honum flaggið og byrjaði sjálfur að dæma. Dómari leiksins lét þetta ekki viðgangast, svipti kaupmanninn nýfenginni stöðu og setti fyrri línuvörð aftur í embætti. Þetta hafði þær afleiðingar að Gunnari Andrew var sagt upp vinnu sinni í „Birninum“, verslun Ólafs Kárasonar. Í bréfi sem Ólafur skrifaði með uppsögninni sagði hann að hegðun Gunnars hefði verið „lítilsvirðing ellegar heimskulegur hroki“. Slík framkoma væri brot á stöðu hans „og verð eg því miður að tilkynna þér að eg skoða þig lausan úr þjónustu minni frá deginum í dag.“ (Skutull 15. sept. 1928).

Næstu ár voru leikir Harðar og Vestra 17. júní ár hvert og þá var tekið að keppa um titilinn Besta knattspyrnulið Vestfjarða. Leikur félaganna á 17. júní var sérstaklega mikilvægur, því þá voru flestir bæjarbúar heimavið, áður en sjómenn og verkafólk flykktist í síldina norður á Siglufjörð eða á aðra söltunarstaði við Norðurland. Leikurinn um Vestfjarðatitilinn fór oftast fram að liðnu sumri, þegar fólk var aftur komið úr síldinni.

Leikur Vestra og Harðar 17. júní árið 1931 var einn af mörgum leikjum, þar sem allt var lagt í sölurnar. Hörður vann 3-2, en harkan í leiknum var slík að þrír leikmenn Harðar lágu eftir óvígir. Þeir gátu því ekki leikið gegn KR úr Reykjavík sem kom í heimsókn til bæjarins viku síðar. Í staðinn lánuðu Vestramenn Herði tvo leikmenn til að styrkja liðið gegn KR. Það dugði skammt því Reykjavíkurliðið vann 7-2.

Í leik 1931 um titilinn besta knattspyrnulið Vestfjarða varð einn Harðverja, Þórir Bjarnason, fyrir því óhappi að fótbrotna. Það var mikið áfall og engar bætur á þeim árum fyrir vinnutap eða sjúkrakostnað. Harðverjar héldu dansleik honum til styrktar um haustið og félagið styrkti hann auk þess um 300 krónur til að bæta skaðann.

Vestfjarðarmeistarar 1948.

„Hinir sigursælu“ Harðverjar

Fram til ársins 1931 æfði og keppti knattspyrnufélagið Hörður aðeins í einum flokki fullorðinna. Yngri strákar æfðu og léku líka fótbolta á reitum bæjarins og stofnuðu stundum púkafélög, sem léku innbyrðis sín í milli. Sumarið 1931 komu 26 „smádrengir“ til Ágústs Leós, eins helsta forystumanns Harðar og mæltust til þess að stofnaður yrði 3. aldursflokkur innan félagsins. Það var gert og Halldór Sigurgeirsson tók að sér æfingar og umsjón með drengjunum. Því uppeldisstarfi sinnti hann í mörg ár fyrir Hörð. Ágúst Leós sagði þannig frá í 25 ára afmælisriti Harðar:

Halldór byrjaði svo að kenna, og það bezta hjá honum var það, að hann lagði meignáherzlu á undirstöðuatriði knattspyrnunnar, en lét ekki drengina byrja á því að hlaupa, sparka og elta knöttinn um allan völlinn, eins og svo margir byrja á – því miður. Nei hann lét þá hlaupa, án þess að elta nokkurn knött, og kenndi þeim að ná góðum hlauparastíl og vera viðbragðsfljótir og sprettharðir, en þó þolgóðir. Einnig kenndi hann þeim rétta meðferð á að stöðva knött, sparka, skalla o. þ. h. Í fám orðum sagt: Hann kenndi þeim að ná réttum knattspyrnumannastíl og að ná valdi á og stjórna knetti. Hann tók hvert atriði útaf fyrir sig og kenndi það með þeim hætti, að það varð leikur úr þessu hjá drengjunum… Þegar svo byrjað var að leika, kenndi hann þeim samleik, svo að þeir unnu allir saman sem ein heild, en „sóló-spil“ reyndi hann að útiloka. Hann gerði þennan flokk að heilsteyptu, samtaka liði ellefu drengja, þar sem hver drengur var æfður í að taka á móti knetti svo sem hann kom til hans og úr hvaða átt sem hann komi og ennfremur að senda knöttinn hvert sem leikandinn vildi.

Þriðji flokkur Harðar náði einstökum árangri ísfirskra liða á næstu árum. Það háði 15 leiki og sigraði í 13 þeirra, en tapaði aðeins tvisvar. Í seinna skiptið var það gegn úrvalsliði KR og Vals í Reykjavík, eftir að hafa unnið bæði lið sitt í hvoru lagi. Eftir þetta var þessi flokkur Harðverja kallaður „hinir sigursælu“. Og þegar leikmennirnir færðust upp í 2. flokk, héldu þeir áfram á sigurbraut.

Frjálsar íþróttir, handbolti, skíði og fimleikar

Knattspyrnufélagið Hörður breiddi vængi sína yfir fleiri íþróttagreinar á fjórða áratugnum. Tryggvi Þorsteinsson íþróttakennari hélt frjálsíþróttanámskeið á Ísafirði sumarið 1936. Olli það þáttaskilum í íþróttalífi bæjarins, þar sem æfingar og keppni í frjálsum íþróttum hafði legið niðri um árabil. Á næstu árum var keppt undir merkjum Harðar og Vestra í hlaupum, köstum og stökkum á 17. júní og fleiri íþróttamótum. Næstu ár og áratugi gerðu íþróttamenn frá Ísafirði garðinn frægan á landsvísu og má þar telja margfalda Íslandsmeistara svo sem Finnbjörn Þorvaldsson í hlaupum og stökkum, kringlukastarann Þorstein Löve og Guðmund Hermannsson kúluvarpara. Konur tóku að æfa útihandbolta á sumrin undir merkjum skátafélagsins Valkyrjur og Hörður og Vestri stofnuðu handboltadeildir og kepptu bæði í kvenna- og karlaflokki. Síðar urðu skíðamenn úr Herði sigursælir og báru hróður félagsins víða. Þá áttu Harðverjar sýningaflokka í fimleikum karla og kvenna, sem héldu sýningar við hátíðahöld í bænum og víðar.

Harðarbúningurinn

Á upphafsárum félagsins léku Harðverjar í fölbláum skyrtum, ekki ósvipuðum lit og Englandsmeistarar Manchester City nota. Röndótti Harðarbúningurinn, í fánalitunum hvítum, rauðum og bláum, eignaðist félagið fyrst um eða eftir 1932. Hann var fyrst saumaður í Englandi og síðar í Þýskalandi. Á stríðsárunum eftir 1940 reyndist útiloka að útvega íþróttabúninga erlendis frá og samþykkti stjórn Harðar þá nýjan búning. Það var rauður bolur með hvítum ermum og kraga og hvítar buxur. Þessi búningur er nú þekktastur á liði Arsenal í London. Áður en stríðinu lauk 1945 voru Harðverjar aftur komnir í sinn „klassíska“ Harðarbúning, sem prýðir lið þeirra enn. Arsenal-búningurinn var notaður á sameiginlegt lið Ísfirðinga í knattspyrnu næstu árin og í fyrstu utanlandsreisu ísfirskra knattspyrnumanna til Færeyja árið 1948.

Frægðarför 1. flokks til Reykjavíkur 1939

Ísfirðingar sendu lið til keppni á Íslandsmót 1. flokks árið 1939. Í upphafi ætlaði Hörður að senda eigið lið, en misstu nokkra leikmenn úr bænum á síldarvertíð og fengu þá Vestramenn til liðs við sig. Sameiginlegt lið Harðar og Vestra lék undir merki Íþróttaráðs Vestfjarða. Í hópnum voru tíu leikmenn úr Herði og fjórir úr Vestra. Fararstjóri var Sverrir Guðmundsson formaður Harðar.

Landsmót 1. flokks var einnig nefnd keppnin um Víkingsbikarinn. Hún var fyrst haldin árið 1920 og var keppni B-liða Reykjavíkurfélaganna í 1. flokki og þeirra liða sem ekki treystu sér til að senda lið í keppni um Íslandsbikarinn í meistaraflokki. Reykjavíkurfélögin skipust á að varðveita Víkingsbikarinn allt til ársins 1939, þegar Ísfirðingar komu, sáu og sigruðu. Auk Ísfirðinga tóku þátt í keppninni fjögur lið frá Reykjavík; Víkingur, KR, Valur og Fram. Ísfirðingar gerðu sér lítið fyrir, unnu bæði KR, Víking og Val og náðu jafntefli gegn Fram. Liðið var taplaust með 7 stig, markatöluna 11-5 og stóð uppi sem sigurvegari mótsins. Það var í fyrsta sinn sem bikar 1. flokks fór út fyrir Reykjavík og í fyrsta sinn sem lið utan Reykjavíkur sigraði á Íslandsmóti í knattspyrnu.

Íslandsmeistarar 1. flokks 1939.

Úr Herði:

Ágúst Leós, verslunarmaður, 31 árs.

Sveinbjörn Kristjánsson, sendill, 19 ára.

Sveinn Elíasson, verslunarmaður, 18 ára.

Böðvar Sveinbjörnsson, verkstjóri, 22 ára.

Herbert Sigurjónsson, bakari, 26 ára.

Guðm. L. Þ. Guðmundsson, sendill, 17 ára.

Halldór Sveinbjörnsson, verkamaður, 18 ára.

Kristmundur Bjarnason, verkamaður, 25 ára.

Níels Guðmundsson, iðnnemi, 17 ára.

Hörður Helgason, námsmaður, 16 ára.

 

Úr Vestra:

Guðjón Bjarnason, bakari, 28 ára.

Jónas Magnússon, verslunarmaður, 23 ára.

Högni Helgason, stúdent, 23 ára.

Halldór Magnússon, prentari, 25 ára.

(„Íslandsmót.“ Skutull 22. júlí 1939.)

 

Hörður á Íslandsmótið 1940

Harðverjar freistuðu þess að endurtaka sigurför ísfirskra knattspyrnumanna frá sumrinu 1939, með því að senda einir lið í keppni 1. flokks árið 1940. Sex lið tóku þátt í mótinu, Reykjavíkurliðin fjögur sendu sín B-lið í 1. flokki og Hafnfirðingar og Harðverjar mættu til leiks. Fyrirkomulagi keppninnar var breytt þetta ár, þannig að beitt var útsláttarfyrirkomulagi. „Spennandi „Knock out“ leikur,“ stóð í augýsingum Reykjavíkurblaðanna. Hörður lék fyrst við Fram og vann 5-1, eftir að jafnt var í hálfleik. Á sama tíma vann Valur lið Hafnfirðinga með yfirburðum. Hörður mætti Val í undanúrslitum. Í Þjóðviljanum mátti lesa: „Þessi næstsíðasti leikur er langbezti leikurinn sem háður hefur verið í 1. fl. mótinu. Frá upphafi til enda var hann spennandi og fjörugur. Valsmenn höfðu oftast yfirhöndina sérstaklega í fyrri hálfleik, en Hörður var í krafti sínum oft hættulega nærri Valsmarkinu, sérstaklega í síðari hálfleik.“ Hörður varð fyrir áfalli í leiknum þegar Halldór Sveinbjörnsson, einn besti maður liðsins, varð að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Valur vann 4-2 og sigraði einnig í úrslitaleiknum gegn Víkingi.

Í leikjum Harðar og Vestra gekk á ýmsu, enda samkeppnin hörð á milli félaganna. Haustið 1944 var enn einn leikurinn háður um Vestfjarðatitilinn. Í lýsingu á leiknum sagði að talsvert fjör sæist í leiknum, þó greinilegt væri að liðin hefðu lítið æft. Vestramenn náðu þó að setja eitt mark, þegar „blaðran sprakk“ í lok fyrri hálfleiks. Það gerðist nefnilega í orðsins fyllstu merkingu að boltinn sprakk. Þá stóð svo illa á að hvorugt liðið átti annan nothæfan bolta sem var tiltækilegur og ákvað dómari leiksins Ágúst Leós því að flauta leikinn af.

Harðarskálinn

Knattspyrnufélagið Hörður hélt 25 ára afmæli sitt hátíðlegt í júní árið 1944 með veglegu afmælishófi á veitingahúsinu „Uppsölum“ og afmælismóti í frjálsum íþróttum, handknattleik og knattspyrnu. Félagsmenn töldust 243 á afmælisárinu, þar af helmingurinn yngri en 16 ára. Á afmælinu gáfu Leósbræður félaginu veglegan silfurbikar, sem keppt var um á 17. júní næstu árin, þar til Hörður vann bikarinn til eignar. Þegar íþróttahúsið og sundhöllin við Austurveg var tekin notkun árið 1946 stofnuðu Harðverjar sunddeild, sem starfaði í nokkur ár. Harðverjar stóðu í ströngu á þessum árum á mörgum sviðum. Árið 1947 hófu þeir framkvæmdir við byggingu skíðaskála á Seljalandsdal. Formaður félagsins á þeim tíma var Högni Þórðarson síðar bankastjóri og byggingameistari var Daníel Sigmundsson. Margir félagar lögðu þar hönd á plóg. Verkið gekk vel og risgjöld voru haldin með kaffisamsæti í Alþýðuhúsinu í nóvember sama ár. Á 30 ára afmæli félagsins 1949 gátu Harðverjar stoltir horft til glæsilegs ferils og reisulegs skíðaskála á Dalnum.

Knattspyrnan í heiðri höfð

Hörður og Vestri döfnuðu bæði næstu áratugi og háðu marga hildi á knattspyrnuvellinum. Á sama tíma þróaðst náið samstarf með félögunum í sameiginlegu liði meistaraflokks, sem tók þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu á ný 1952. Á afmælisári félagsins 1959 varð Hörður sigursæll í öllum flokkum á Vestfjarðamótinu, 1.-5. flokki. Vestramenn hafa trúlega ekki ætlað að sýna Harðverjum þvílíka kurteisi á afmælisárinu. Annars skiptust félögin á um að sigra Vestfjarðamótið í hinum ýmsu flokkum og hleyptu ekki öðrum félögum að þeim titli, þrátt fyrir áhlaup Bolvíkinga, Stefnismanna frá Suðureyri, Höfrunga frá Þingeyri eða Harðverja frá Patreksfirði.

Öflugt knattspyrnulíf á vegum Harðar og Vestra leiddi sameiginlegt lið Ísfirðinga til sigurs í 2. deild 1961 og léku Ísfirðingar í fyrsta sinn í efstu deild knattspyrnu karla sumarið 1962. Haustið 1963 var gamli fótboltavöllurinn við Grund kvaddur með hátíðlegri viðhöfn. Jens Kristmannsson var þá orðinn formaður Harðar og flutti ávarp. Jens var formaður félagsins lengst allra, frá árinu 1960 til 1982. Við kveðjuathöfnina færðu hjónin Friðrik Bjarnason málarameistari, markvörður og knattspyrnudómari, og eiginkona hans Finnborg Jónsdóttir, bæði Herði og Vestra glæsilega hátíðarfána í minningu dóttur sinnar. Hörður vann Vestra í úrslitaleik Vestfjarðamótsins 3-2 og gamlir keppnismenn félaganna léku kveðjuleik vallarins. Dómari var Ágúst Leós. Sumarið eftir flutti knattspyrnan á nýjan keppnisvöll á Torfnesi, þar sem aðalvöllur bæjarins er enn.

Hörður hélt áfram blómlegu starfi næstu ár, keppt var í knattspyrnu í 5., 4., 3., stundum 2. flokki og meistaraflokki hvert sumar og Hörður átti oft sigri að fagna. Árið 1970 sendi Hörður sitt eigið lið í Bikarkeppni KSÍ. Eftir sigur á Vestra og Borgnesingum komst lið Harðar í 8 liða úrslit og mætti Fram úr Reykjavík. Leikurinn fór fram á Torfnesvellinum á Ísafirði. Harðverjar lutu í lægra haldi fyrir Frömurum, sem héldu áfram um urðu að lokum bikarmeistarar þetta árið. Þegar kom fram undir 1980 hafði starf knattspyrnufélaganna tekið þá stefnu að mesta orkan fór í sameiginleg keppnislið undir merkjum ÍBÍ og hið öfluga unglingastarf sem einkenndi Ísafjarðarfélögin um áratuga skeið tók að dala. Þegar kom fram á síðasta áratug 20. aldar má segja að starf Harðar hafi lagst í dvala um nokkur ár.

Lið Harðar um 1980.

Endurreisnin

Skömmu fyrir aldamótin 2000 vaknaði Hörður aftur til lífsins sem glímufélag, handboltafélag og loks sem knattspyrnufélag. Hópur ungra drengja og stúlkna tók að æfa glímu undir merkjum Harðar undir forystu Hermanns Níelssonar íþróttakennara og handboltalið félagsins var endurvakið og tók þátt í Íslandsmótum eldri og yngri flokka. Árið 2014 var Knattspyrnufélagið Hörður skráð til keppni í meistaraflokki á Íslandsmótinu í fyrsta sinn frá árinu 1940. Stór hópur ungra knattspyrnumanna ákvað að hefja leik með Herði í 3. deild. Fyrirliði og aðalstjórnandi liðsins var Tómas Emil Guðmundsson, barnabarn Högna Þórðarsonar, fyrrum leikmanns og formanns Harðar. Liðið var skipað mörgum ungum heimamönnum, sem komu upp úr öflugu unglingastarfi BÍ árin á undan. Knattspyrnufélagið Hörður lifir því enn góðu lífi og íþróttafólk þess í glímu, handknattleik og knattspyrnu skartar íslensku fánalitunum.

Enginn hefur flaggað íslenska fánanum oftar

Á 100 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Harðar er við hæfi að óska öllum Harðverjum til hamingju með glæsilegan feril félagsins í heila öld og jafnframt óska félaginu allra heilla í framtíðinni. Að lokum er tilefni til að rifja upp sögu, sem Friðrik Bjarnason málarameistari og þáverandi formaður Knattspyrnuráðs Ísafjarðar sagði á 50 ára afmæli félagsins. Í Tangagötu 29 bjuggu bæðurnir Jón, Kristmann og Jens Kristmannssynir. Allir voru þeir miklir Harðverjar og Jens formaður félagsins um árabil. En framlag móður þeirra, Bjargar Jónsdóttur, lifir sem áminning um alla þá, karla og konur, sem standa að baki keppnisfólkinu í íþróttafélögunum:

Ég held að ég geri engum Harðverja rangt til, þó að ég nefni heimili Harðar, undanfarin ár, Tangagötu 29. Húsmóðirin þar er sá Harðverji, er ég hef oftast beðið um hjálp, þegar mikið hefur staðið til. Og ávallt hefur hún verið reiðubúin, hvort sem hún gat eða gat ekki. Hún gat heldur aldrei sagt nei. Var þá sama hvort ég bað hana að sjá um mat fyrir fjölda færeyskra íþróttamanna, oftar en einu sinni, eða íslenzka íþróttaflokka, og ýmiss veizluhöld, sem hún gerði ávallt án þess að þiggja greiðslu. Ávallt var svarið: Friðrik greiðið þið stúlkunum sem hjálpuðu mér, en við tölum um mitt kaup seinna. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum, sem leið hefur átt hjá Tangagötu 29 undanfarin ár, hve oft hefur verið flaggað með íslenzku fánalitunum á snúrunum, bak við húsið. Það segir sína sögu.

Stjórn Harðar 1969.

Sigurður Pétursson, sagnfræðingur.

Afmælisgrein þessi er unninn upp úr bók höfundar: Knattspyrnusaga Ísfirðinga, sem út kom árið 2017.

DEILA