Íþróttafélagið Hörður 100 ára í dag

Íþróttafélagið Hörður á Ísafirði er 100 ára í dag.  Stofnfundur félagsins var haldinn 27. maí 1919 í Sundstræti 41. Stofnendur voru tólf ungir Ísfirðingar: Karl, Þorsteinn og Guðbrandur Kristinssynir, Kristján og Jón Albertssynir, Hjörtur og Garðar Ólafssynir, Þórhallur Leósson, Dagbjartur Sigurðsson, Ólafur Ásgeirsson, Helgi Guðmundsson og Axel Gíslason. Þeir höfðu allir áður starfað í Fótboltafélagi Ísafjarðar, sem stofnað var 1914 og starfaði í tíu ár.

Þetta kemur fram í ítarlegri grein Sigurðar Péturssonar, sagnfræðings um íþróttafélagið og sögu þess, sem unninn er upp úr bók hans: Knattspyrnusaga Ísfirðinga, sem út kom árið 2017.

Í greininni er rakin búningasaga Harðar og er sterk skírskotun til enskra liða.

„Á uUpphafsárum félagsins léku Harðverjar í fölbláum skyrtum, ekki ósvipuðum lit og Englandsmeistarar Manchester City nota. Röndótti Harðarbúningurinn, í fánalitunum hvítum, rauðum og bláum, eignaðist félagið fyrst um eða eftir 1932. Á stríðsárunum eftir 1940 reyndist útiloka að útvega íþróttabúninga erlendis frá og samþykkti stjórn Harðar þá nýjan búning. Það var rauður bolur með hvítum ermum og kraga og hvítar buxur. Þessi búningur er nú þekktastur á liði Arsenal í London. Áður en stríðinu lauk 1945 voru Harðverjar aftur komnir í sinn „klassíska“ Harðarbúning, sem prýðir lið þeirra enn.“

 

Greinin birtist síðar í dag í heild sinni undir aðsendum greinum.

DEILA