Skýrsla Endurskoðunar Vestfjarða ehf um ársreikning 2018 fyrir ísafjarðarbæ hefur verið lögð fram. Það er álit endurskoðenda að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu sveitarfélagsins á árinu 2018.
Helstu ábendingar og athugasemdir lúta í fyrsta lagi að Fasteignum Ísafjarðarbæjar ehf sem bærinn á og rekur. Bókfærðar eignir félagsins eru 584 milljónir króna en skuldir eru 1260 milljónir króna. Óvíst er um raunverð fasteigna félagsins, segir í skýrslunni.
Þá er minnst á könnun Deloitte ehf á innra eftirliti upplýsingarkerfa sem gerð var í byrjun árs 2018. Er talið brýnt að bærinn bregðist við þeim athugasemdum sem Deloitte gerði, einkum varðandi aðgangsheimildir að Navision og merktar eru með rauðum hring. Ekki kemur nánar fram í endurskoðunarskýrslunni hvaða athugasemdir þetta eru.
Þá er vakin athygli á skekkju í aflagjaldi sem verið hefur í mörg ár. Er það vegna þess að Reiknistofa fiskmarkaða hefur tekið 1,5% í aflagjald í stað 1,58%. gerir það að evrkum að bókfærðar tekjur Ísafjarðarhafnar eru 3 milljónum króna lægri á síðasta ári en vera ætti. Málið er til skoðunar hjá Reiknistofu Fiskmarkaða.