Nýtt og glæsilegt pípuorgel var vígt í Hólskirkju í fögru veðri í messu í gær að viðstöddu fjölmenni. Biskup Íslands var viðstödd og flutti predikun.
Í ávarpi safnaðarnefndarformanns Einars Jónatanssonar í athöfn að lokinni messu og vígslunni kom fram að kostnaður væri um 23 milljónir króna og væri hann að fullu greiddur. Bárust framlög frá mörgum á 10 ára tímabili. Orgelsmiður var Björgvin Tómasson en einnig komu mikið að verkinu Margrét Erlingsdóttir, rafvirki og Jóhann Hallur Jónasson, smiður.
