Harmonikufélag Vestfjarða- fréttir – dagur harmonikunnar á laugardaginn

Þessir frísku Ísfirðingar voru á degi harmonikunnar á Þingeyri árið 2015 að hlýða á Lóu og harmonikukallana. Þau munu spila á laugardaginn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þann 13. apríl s.l.  hélt  Harmonikufélag Vestfjarða  aðalfund sinn fyrir nýliðið starfsár, í  Nausti,  sal eldriborgara á Hlíf 2.

Þar kom  fram  að starfið hefur verið  með rólegra móti,   árið  eftir   vel  heppnað Landsmót S.Í.H.U.  sem haldið var hér á Ísafirði  2017 af Harmonikufélagi   Vestfjarða.

Í skýrslu stjórnar  er sagt  frá haust-aðalfundi Sambands íslenskra harmonikuunnenda sem haldin  var á Akureyri 5. til 7. október  2018, fulltrúar félagsins voru  Karitas Pálsdóttir og Magnús Reynir Guðmundsson.

Sagt er frá samstarfi Harmonikufélagsins  við Tónlistarskóla Ísafjarðar sem  fór af stað s.l. haust  þegar Rún Esradóttir tók við kennslu  á  harmoniki,  stjórnin heimsótti skólann og kynnti sér hljóðfærakostinn, sem þeir Baldur Geirmundsson og Villi Valli  töldu viðunandi,  Baldur hafði áður yfirfarið hljóðfæri fyrir skólann.

Stjórn Harmonikufélgsins  tók þá ákvörðun að styrkja Tónlistarskóla Ísafjarðar  um   kr. 200.000.-  ætlað til greiðslu skólagjalda fyrir nema í harmonikunámi  og vonumst við  til að það hjálpi   og  hvetji  einhverja  til  námsins.  Ingunn Ósk Sturludóttir skólastýra  og þær Dagný Arnalds  og Rúna Esradóttir  veittu viðtöku gjafabréfs  þessu til staðfestingar.

Magnús Reynir, Villi Valli og Baldur.
Mynd: aðsend.

Harmonikusnillingarnir  Baldur Geirmundsson og Villi Valli ásamt Magnúsi Reyni bassaleikara láta bæjarbúa njóta  tónlistarinnar við ýms tækifæri, sem þeir og gerðu á aðalfundinum. Einnig eru Harmonikukarlarnir og Lóa, á  Þingeyri í fullu fjöri og   æfa stíft.

Það er af  aðalfundinum að segja að skýrsla stjórnar og reikningar voru samþykktir. Stjórn félagsins var endurkjörin, en hana skipa:  Hafsteinn Vilhjálmsson formaður, Magnús Reynir varaformaður, Hólmgeir Pálmason gjaldkeri,  Sigríður Gunnarsdóttir  ritari,  og  Messiana Marsellíusdóttir meðstjórnandi.

Undir liðnum önnur mál var rætt um að stefna á ferðalag að hausti  og eru allar hugmyndir um áfangastað  vel þegnar. Næsta Landsmót S.Í.H.U.    Sambands íslenskra harmonikuunnenda verður haldið í Stykkishólmi 2020 af Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík.

Þingeyri – dagur harmonikunnar á laugardaginn

Dagur harmonikunar er fyrsti laugardagur í maí sem núna ber upp á  4. Harmonikukarlarnir og Lóa bjóða að vanda til samkomu í Félagsheimilinu á Þingeyri og kvenfélagið sér um kaffiveitingar. Aðgangur ókeypis.

Sjáumst sem flest.

DEILA