Framsókn með fyrirvara um innflutning á hráu kjöti

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi segir í tilkynningu sem hún sendi frá sér í gærkvöldi að þingflokkur Framsóknarflokksins hafi sett fyrirvara um stuðning við frumvarp sem heinilar innflutning á hráu kjöti. Hún segir að banna ætti dreifingu matvæla sem innihalda kampýlóbakter og fjölónæmar bakteríur.

Frv landbúnaðarráðherra um dýrasjúkdóma o.fl. er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd Alþingis og er álit nefndarinnar væntanlegt.

Tilkynningin er svohljóðandi:

 

„Þegar hrákjötsfrumvarpið var lagt fyrir Alþingi í vetur bókaði þingflokkur Framsóknarflokksins fyrirvara um málið sem unnið hefur verið eftir í meðferð málsins í Atvinnuveganefnd. Fyrirvararnir snúa að því að sömu gæðakröfur verði gerðar til innfluttra matvæla frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu og ennfremur að lýðheilsa beri ekki skaða af innflutningi vegna sýktra matvæla. Marmikið EES samningsins er ekki að staða okkar versni frá því nú er.
Mikilvægt er að sömu kröfur séu gerðar til innlendrar matvælaframleiðslu og innfluttrar.

Meginstefið í okkar áherslum var að ná því fram að banna ætti dreifingu matvæla sem innihalda  kampýlóbakter,  salmónellu og fjölónæmar bakteríur. Til þess þarf að tryggja fjármagn til eftirlits og rannsókna í matvælaframleiðslu.

Framsóknarflokkurinn hefur í vetur tekið sér stöðu og verið óhræddur við að benda á þá ógn sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar fjölónæmar bakteríur. Fjölmennur fundur var haldinn á Hótel Sögu þar sem okkar helsti sérfræðingur Karl. G. Kristinsson prófessor í sýklafræði við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir við Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans fór yfir staðreyndir málsins. Auk þess sem við fengum  Lance Price, prófessor George Washington-háskóla og stjórnanda rannsóknaseturs skólans sem rannsakar ónæmi gegn sýklalyfjum. Hann brýndi fyrir fundarmönnum að verja þyrfti þá sérstöðu sem við búum við á Íslandi. Á grunni sérstöðunnar ættum við möguleika á að banna dreifingu á matvælum sem innihalda fjölónæmar bakteríur til  að verja lýðheilsu manna og heilbrigði búfjár í landinu.

Ísland getur verið í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með banni á dreifingu matvæla sem í greinist sýklalyfjaónæmar bakteríur.

Auk þess lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að endurskoða þurfi tollasamning  landbúnaðrafurða þar sem forsendubrestur verður við úrsögn Breta úr ESB.“

DEILA