Fiskeldi: Áhyggjur af breytingartillögum stjórnarliðsins

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um fiskeldi hefur verið afgreitt frá atvinnuveganefnd Alþingi.  Meirihluti nefndarinnar, sem er skipaður fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna,auk Miðflokksins og Pírata  hefur skilað af sér áliti sínu og breytingartillögum. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins  og Viðreinsnar hafa ekki lagt fram sitt álit og er því ekki vitað á þessu stigi hvaða afstöðu þeir taka til málsins.

Meirihluti nefndarinnar setur fram álit sitt um ýmis atriði frumvarpsins og kallar það umsögn, en óvenjulegt er að hvergi kemur fram hvort meirihlutinn styðji málið og mæli með því að frumvarpið verði samþykkt.

Þau atriði sem fengu mesta umfjöllun í meðferð nefndarinnar voru áhættumat erfðablöndunar, rekstrarleyfi, gildi þeirra og umsóknir um þau, sjókvíaeldi í opnum og lokuðum kerfum, kostir, gallar og áhættur, mikilvægi þess að regluverk sé endurskoðað og fylgi þróun í atvinnugreininni auk náttúruverndar- og umhverfissjónarmiða.

Um eldið segir í álitinu að  að gæta verði ýtrustu varkárni við framleiðsluna og að gera kröfu um að rekstrarleyfishafar beri ábyrgð á því að ekki verði erfðablöndun við villta íslenska laxastofna. Með notkun mótvægisaðgerða, t.d. ljósastýringu og notkun stærri seiða, sem miði að því að seinka kynþroska frjólaxa verði hverfandi líkur á því að eldisfiskar nái að fjölga sér úti í náttúrunni sleppi þeir úr kvíunum segir í álitinu.

Bendir meirihlutinn á að rannsóknir sýni að eldisfiskar standi verr að vígi en villtir stofnar og séu síður í stakk búnir til að lifa af í náttúrunni. Sú hæfni fari minnkandi eftir því sem stærri seiðum er sleppt í kvíarnar. Mótvægisaðgerðirnar stuðli þannig að því að lágmarka líkur á erfðablöndun.
Meirihlutinn leggur til 22 breytingar á frumvarpinu. Meðal breytinga er ein sem hefur vakið áhyggjur um möguleika á laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Tillagan kveður á um það hvaða umsóknir halda gildi sínu eftir gildistöku frumvarpsins sem lög. Miðað við orðalag breytingartillögunnar virðist sem allar umsóknir sem nú þegar hafa verið lagðar fram og eru sumar hverjar búnar að velkjast árum saman í stjórnkerfinu muni falla niður þar sem þær eru ekki skilgreindar sem fullgildar umsóknir fyrr en álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati iggur fyrir.

Eftir því sem Bæjarins besta hefur fengið staðfest úr herbúðum stjórnarliðsins verða fundahöld þingmanna kjördæmisins á morgun út af breytingartillögum meirihluta atvinnuveganefndarinnar.

 

DEILA