Edinborgarhúsið sker niður í rekstri

Stjórn Edinborgarhússins hefur ákveðið að skera niður í rekstri með þvi að  rekstrar- og viðburðarstjóra er sagt upp. Segir í yfirlýsingu frá stjórninni, sem var að berast  að félagið stefni í greiðsluþrot verði ekkert aðhafst. Vonast stjórnin til þess að fljótlega takist að skapa resktrargrundvöll fyrir starfsemi hússins.

Yfirlýsingin í heild:

Breytingar í rekstri Edinborgarhússins

Vegna aðstæðna í rekstri Edinborgarhússins ehf. hefur stjórn tekið þá ákvörðun að skera niður í rekstri hússins. Stærsti einstaki þátturinn í því er uppsögn rekstrar- og viðburðarstjóra sem mun að óbreyttu láta af störfum í lok sumars. Ljóst er að félagið stefnir í greiðsluþrot verði ekki gripið til aðgerða. Þetta er afar þungbær aðgerð og mun starfseminn dragast verulega saman í kjölfar hennar, en aðrar leiðir eru ekki færar í stöðunni.

Það var mikið gæfuspor sem stjórn Edinborgarhússins steig haustið 2014 þegar Matthildur Helgadóttir Jónudóttir var ráðin í starf rekstrar- og viðburðarstjóra Edinborgarhússins. Í hennar tíð hefur starfsemin vaxið mikið á öllum sviðum svo eftir er tekið. Með tilkomu starfsmanns í fullu starfi hefur húsið í raun farið að þjóna þeim tilgangi sem til þess var stofnað upphaflega.

Fram að starfslokum Matthildar mun starfsemi hússins haldast óbreytt, en með haustinu er ljóst að hún mun dragast verulega saman fari fram sem horfir.

Með menningarhúsasamningi, ríkisins og Ísafjarðarbæjar, sem undirrtaður var árið 2003 varð húsið eitt af menningarhúsum Vestfjarða. Stjórn Edinborgarhússins vona að fljótlega takist að skapa öruggan rekstrargrundvöll fyrir húsið til lengri tíma litið svo það megi þjóna tilgangi sínum eins og til var stofnað.

Stjórn Edinborgarhússins ehf.

Jón Sigurpálsson, stjórnarformaður
Gísli Jón Hjaltason
Ingi Björn Guðnason

DEILA