Dýradagurinn 22. maí 2019

fréttatilkynning frá Landvernd:

Þann 22. maí 2019, á alþjóðlegum degi lífbreytileika, verður litrík skrúðganga barna og ungmenna sem hefur það að markmiði að vekja athygli á umhverfismálum og sérstaklega málefnum hafsins. Gangan hefst kl. 14:30 og gengið verður frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn.

Skrúðganga og dagskrá

14:00-14:30 Nemendur klæða sig í búninga og safnast saman á skólalóð Laugarnesskóla

14:30-15:00 Gengið í skrúðgöngu inn í Grasagarðinn (götum verður lokað tímabundið)

15:00-15:30 Dagskrá í Grasagarðinum, stutt ávörp, hugvekja frá nemendum og skemmtun.

Dýradagurinn verður haldinn í fyrsta skipti á Íslandi 22. maí 2019 en þessi dagur er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Dýradagurinn er valdeflandi viðburður sem gefur nemendum tækifæri til að læra um og vekja athygli á m.a. loftslagsbreytingum, plastmengun og fjölbreytni lífríkisins. Gengið verður í litríkri skrúðgöngu frá Laugarnesskóla yfir í Grasagarðinn þar sem skipulögð dagskrá verður. Viðburðurinn er opinn öllum og er liður í 50 ára afmælisdagskrá Landverndar.

Úr hugmyndasmiðju Dr. Jane Goodall

Dýradagurinn er byggður á hugmynd frá Roots & Shoots samtökum Jane Goodall í Taiwan og Argentínu sem kallast „Animal Parade“. Jane Goodall sjálf sýnir þessum viðburðum alltaf mikla athygli og stefnir á að vera viðstödd á Dýradeginum á Íslandi vorið 2020.

Þema göngunnar er málefni hafsins og er viðburðurinn settur upp sem blanda af umhverfisfræðslu og skapandi vinnu með börnum og ungmennum sem m.a. felst í búninga- og grímugerð úr efnivið sem annars væri fleygt.

Samstarfsaðilar í verkefninu eru Landvernd, Reykjavíkurborg, Grasagarður Reykjavíkur,

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Fuglavernd, Norræna húsið, Barnamenningarhátíð,

Myndlistaskóli Reykjavíkur og Ragnheiður Maísól Sturludóttir, listakona.

DEILA