Byggðasafn Vestfjarða: Átta umsækjendur

Átta umsækjendur voru um starf forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða sem auglýst var í síðasta mánuði. Stjórn safnsins, sem er skipuð sveitarstjórunum við Djúp, Guðmundi Gunnarsyni, bæjarstjóra Ísafjarðarbæ, Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra í Bolungavík og Braga Þór Thoroddsen, sveitarstjóra í Súðavík fól Guðmundi Gunnarssyni, stjórnarformanni og Baldri Inga Jónassyni, mannauðsstjóra Ísafjarðarbæjar  að sjá um ráðningarferlið og leggja niðurstöður fyrir stjórn.

Í fundargerð stjórnarinnar á fundi þann 22. maí 2019 kemur fram að

„Við mat og yfirferð umsókna, sem bárust um starfið, var í upphafi einkum litið til reynslu, menntunar og hæfni umsækjenda með tilliti til þeirra verkefna sem hlutaðeigandi er ætlað að sinna. Við meðferð ráðningar og við val á milli umsækjenda fór fram athugun og skoðun á nokkrum grundvallarþáttum, svo sem fyrri störfum og starfsreynslu, menntun, hæfni, sérhæfingu, meðmælum o.fl. Í ráðningarferlinu var ennfremur horft til frammistöðu í starfsviðtali. Við ákvörðun um ráðningu var tekið tillit til niðurstaðna úr samanlögðu mati á öllum ofangreindum matsþáttum.“

Niðurstaða stjórnar Byggðasafns Vestfjarða er að ráða Jónu Símoníu Bjarnadóttur í starfið enda koma hún best út úr ofantöldum matsþáttum ráðningarferlis.

Formaður stjórnar Guðmundur Gunnarsson var á fundinum en Jón Páll og Bragi Þór voru fjarstaddir en í síma.

Einn umsækjenda dró umsókn sína til baka , en hinir sjö umsæjendurnir voru:

Eyþór Jóvinsson

Helga Þórsdóttir

Hilda Kristjánsdóttir

Hulda Hlín Magnúsdóttir

Ingvi Hrafn Laxdal Victorsson

Jóna Símonía Bjarnadóttir

Sæbjörg Freyja Gísladóttir.

Meðal umsækjendanna var Helga Þórsdóttir  núverandi forstöðumaður safnsins.

Jóna Símonía Bjarnadóttir er forstöðumaður Safnahússins á Ísafirði , en það hýsir Bókasafnið Ísafirði, Skjalasafnið Ísafirði, Ljósmyndasafnið Ísafirði og Listasafn Ísafjarðar.

DEILA