Bílddælingur í Jónshúsi á morgun með Ljóðasetur Íslands

Bílddælingurinn Þórarinn Hannesson verður í Jónshúsi í Kaupmannahöfn á morgun, þriðjudaginn 28. maí 2019 kl 17:30 þar sem hann mun kynna starfsemi setursins og að auki mun hann kveða nokkrar rímur og syngja nokkur frumsamin lög við ljóð ýmiss íslenskra skálda má þar nefna:

Jónas Hallgrímsson, Ingunni Snædal, Stefán Hörð Grímsson, Jón úr Vör,

Vilborgu Dagbjartsdóttur, Guðmund Hagalín, Jón Thoroddsen og Hallgrím Helgason o.fl.

Þórarinn Hannesson er búsettur á Siglifirði og kom þar á fót Ljóðasetri Íslands.

Upphafið að því að Ljóðasetur Íslands varð til má rekja til haustsins 2005. Þetta haust var formaður Umf Glóa á Siglufirði, Þórarinn Hannesson, að velta fyrir sér verkefnum á menningarsviðinu fyrir félag sitt. Verkefni á íþróttasviðinu höfðu orðið sífellt færri hjá félaginu, þar sem börnum á Siglufirði fækkaði því miður mikið þessi ár, og því var ákveðið að félagið horfði til nýrra verkefna á öðru sviði. Þá kviknaði sú hugmynd í kolli formannsins að blása til ljóðakvölds og fá valinkunna bæjarbúa til að lesa úr eigin verkum eða annarra. Þessi viðburður heppnaðist það vel að áfram var haldið og næstu tvo vetur voru haldin  samtals 8 ljóðakvöld þar sem ýmsir lesarar komu fram og fluttu efni úr ýmsum áttum.

Ljóðahátíðin Glóð
Í kjölfar þessara vel heppnuðu ljóðakvölda var ákveðið að útvíkka hugmyndina og halda nokkurra daga ljóðahátíð á Siglufirði. Tilgangur hennar átti að vera sá að Siglfirðingar fengju að kynnast ýmsum af helstu ljóðskáldum landsins og að veita siglfirskum listamönnum, skáldum sem öðrum, vettvang til að koma sínu efni á framfæri. Einnig var lögð áhersla á að börn og unglingar staðarins yrðu virkir þátttkendur í hátíðinni.  Hátíðin fékk nafnið Glóð í höfuðið á ungmennafélaginu og ljóðlistinni.

Haustið 2007 var fyrsta hátíðin haldin og lukkaðist hún ljómandi vel, þekktir listamenn sem og heimamenn komu fram, flutt voru ljóð fyrir nokkur hundruð manns m.a. í skólanum, á dvalarheimilinu, á ljóðakvöldum og á vinnustöðum auk þess sem boðið var upp á námskeið og sérstakar ljóðadagskrár. Hefur hátíðin verið haldin á hverju hausti síðan.

DEILA