Barðastrandarsýsla fyrir Óbyggðanefnd

Óbyggðanefnd hefur sent frá sér fréttatilkynningu um kröfur fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins um land í Barðastrandarsýslu.

Kröfurnar ná til fimm svæða sem eru í kröfulýsingunni nefnd Hvannahlíð, Skálmar­dals­heiði, Auðshaugsland, Vatnsfjörður og Bæjarbjarg en tvö þau fyrstnefndu eru í Reykhólahreppi og hin þrjú innan marka Vesturbyggðar.

Óbyggðanefnd, sem er sjálfstæð úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi, kynnir nú þessar kröfur ríkisins, í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998, í þeim tilgangi að ná til þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta. Þeir sem telja til eignarréttinda á landsvæðum sem falla innan þjóðlendukröfusvæða íslenska ríkisins hafa nú frest til 16. ágúst 2019 til að lýsa kröfum fyrir óbyggðanefnd.

Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu umræddra svæða mun óbyggðanefnd úrskurða um fram komnar kröfur.

Málsmeðferðin framundan verður í meginatriðum þannig að opinber kynning á heildarkröfum (ríkisins og annarra) fer fram að loknum framangreindum kröfulýsingarfresti og stendur í einn mánuð. Málið verður síðan rannsakað hjá óbyggðanefnd og tekið fyrir eins oft og þurfa þykir. Óbyggðanefnd ber samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 að hafa frumkvæði að því að afla heimilda og gagna um eignar- og afnotaréttindi yfir þeim landsvæðum sem til meðferðar eru auk þess að rannsaka og athuga staðreyndir og lagaatriði sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu í einstökum málum. Til að tryggja að þau gögn sem mögulega geta haft þýðingu komi fram hefur óbyggðanefnd samið við Þjóðskjalasafn Íslands um kerfisbundna leit að gögnum um ágreiningssvæðin. Að auki spyrst óbyggðanefnd fyrir um gögn víðar og óskar eftir þeim eftir því sem tilefni eru til. Mikilvægir liðir í málsmeðferð hjá óbyggðanefnd, auk gagnaöflunar, eru vettvangsferð og svonefnd aðalmeðferð. Það felur í sér að farið er á vettvang á ágreiningssvæðum undir leiðsögn heimamanna, aðilar og vitni gefa skýrslur og að því búnu eru málin flutt munnlega. Eftir að fram komin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar eru úrskurðir kveðnir upp.

Frekari upplýsingar um málsmeðferð óbyggðanefndar o.fl. fást á vefsíðu nefndarinnar og á skrifstofu hennar.

DEILA