Áskorun til stjórnvalda um uppbyggingu varnarvirkja gegn ofanflóðum

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að skora á stjórnvöld að hraða uppbygging snjóflóðamannvirkja á landinu. Í framhaldi af fjölsóttri ráðstefnu á Siglufirði í síðasta mánuði hófu nokkrir aðilar að safna undirskriftum að áskoruninni. Þykir hægt ganga að vinna að uppbyggingu mannvirkjanna sem hefur ítrekað verið frestað eða hægt á af ýmsum ástæðum. Meðal þeirra sme standa að áskoruninni eru Kristín Martha Hákonardóttir, verkfræðingur á Verkís, Harpa Grímsdóttir, sem fer fyrir ofanflóðavöktun á Veðurstofunni og Tómas Jóhannesson einnig sérfræðingur á Veðurstofunni, Halldór Halldórsson fyrrv bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Magnús Jóhannesson, fv. ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, og Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Textinn er svohljóðandi:

Við undirrituð, sem öll höfum komið að hættumati og uppbyggingu varna gegn snjóflóðum og skriðuföllum hér á landi á undanförnum árum og áratugum, viljum skora á stjórnvöld að ljúka sem fyrst uppbyggingu ofanflóðavarna. Fjárhagslega og tæknilega virðist raunhæft að ljúka þeim framkvæmdum sem eftir standa fyrir árið 2030 ef fljótlega verður hafist handa við framkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið, og samtímis unnið að undirbúningi framkvæmda sem skemmra eru á veg komnar. Þetta er verðugt markmið nú þegar tæpur aldarfjórðungur er liðinn frá hinum hörmulegu slysum í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Ekki er viðunandi að meira en hálf öld líði frá þessum slysum þar til fullnægjandi varnir hafa verið reistar fyrir byggð á mestu snjóflóðahættusvæðum landsins þar sem slíkur hægagangur býður heim hættu á mannskæðum slysum í þéttbýli.

DEILA