Ársfundur Orkubús Vestfjarða 2019

Í gær var haldinn á Ísafirði ársfundur Orkubús Vestfjarða 2019. Formaður stjórnar er Illugi Gunnarsson og Viktoría Rán Ólafsdóttir er varaformaður. Aðrir stjórnarmenn eru Friðbjörg Matthíasdóttir,  Elsa Kristjánsdóttir og  Gísli Jón Kristjánsson.

Orkubússtjóri er Elías Jónatansson.

Í ársskýrslu fyrir 2018 kemur fram að framleiðsla eigin raforkuvinnsla Orkubús Vestfjarða var 95 GWh, en jarðhitavinnsla um 17 GWh. Raforkukaup frá öðrum voru 152 GWH, þar af var raforka á rafskaut 87 GWh. Heildarorkuöflun var því 267 GWh í samanburði við 259 GWh árið á undan og jókst þannig um 3%.

Eigin framleiðsla var því aðeins um 35% af heildarorkuöflun.

Tekjur 2,8 milljarðar króna

Heildartekjur Orkubús Vestfjarða voru 2.841 milljón króna á árinu 2018 og jukust um 9% á milli ára á meðan gjöldin hækkuðu um 6,5%. Afkoman var betri en rekstraráætlun ársins gerði ráð fyrir og var hagnaðurinn eftir skatta 244 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 181 milljón krónum í hagnað.
Rekstrarhagnaður EBITDA var 721 milljón króna eða 25% og hafði hækkað um 108 milljón krónur frá árinu á undan. Fjármunamyndun í fyrirtækinu, veltufé frá rekstri, jókst um 125 milljón krónur á milli ára og var 711 milljón krónur á árinu 2018.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 682 milljón krónur á árinu og var fjárfestingin því minni en fjármunamyndunin á árinu. Heildareignir nema nú um 8,8 milljörðum króna en eigið fé Orkubús Vestfjarða er 6,1 milljarður króna eða
69% af heildarfjármagni.

Ríkið vill kaupa Landsnet

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að teknar verði upp viðræður um kaup ríkisins á
eignarhlutum núverandi eigenda Landsnets.
Hlutdeild félagsins í eigin fé Landsnets er 2,6 milljarðar króna, en bókfært verð er 352,7 milljónir króna.

DEILA