Vísindaportið: Verðmætasköpun úr kalkþörungum

Í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 12. apríl mun gestur okkar Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. fjalla um starfsemi fyrirtækisins: hvað er verið að framleiða og hvernig framleiðslan hefur breyst frá upphafi. Halldór mun einnig skýra hvað kalkþörungur er og hvernig hann muni líklega nýtast enn betur í framtíðinni. Þá verður komið inn á áform fyrirtækisins varðandi stækkun vinnslunnar á Bíldudal, en stefnt er einnig að nýjum umsvifum bæði við Ísafjarðardjúp og Breiðafjörð. Íslenska kalkþörungafélagið er rekið á Íslandi fyrir eigandann Marigot sem er með höfuðstöðvar í Cork á Írlandi og starfa í verksmiðjunni á Bíldudal um 30 manns.
Halldór er viðskiptafræðingur MBA og með meistaragráðu í mannauðsstjórnun. Hann hefur áður stundað sjómennsku, unnið sem stjórnandi í fiskvinnslu og rekið eigin fyrirtæki á sviði bókhalds, endurskoðunar, fasteignasölu og einnig ferðaþjónustu. Í tólf ár starfaði Halldór sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, hann var borgarfulltrúi í Reykjavík og einnig formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Vísindaportið sem er um leið það síðasta í vor fer að vanda fram kl. 12:10-13 í kaffistofu Háskólaseturs. Allir velkomnir.
DEILA