Tillaga að friðlýsingu Látrabjargs

Umhverfisstofnun hefur kynnt  tillögu að friðlýsingarskilmálum fyrir friðland að Látrabjargi ásamt tillögu að mörkum svæðisins.  Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 18. júlí 2019.

Stofnunin hefur undanfarin ár unnið að undirbúningi friðlýsingar á Látrabjargi, skv. 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, með samtali við landeigendur, sveitarfélag og fleiri. Skal Umhverfisstofnun gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta og er tillagan afrakstur af því ferli.

Segir í auglýsingu Umhverfisstofnunar að tillagan „byggir á því samtali sem hefur átt sér stað á vettvangi samstarfshóps og þeim athugasemdum sem bárust frá fulltrúum landeigenda við áður framlagða tillögu Umhverfisstofnunar að friðlýsingarskilmálum fyrir svæðið.“

Frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu er þrír mánuðir og skal stofnunin í kjölfarið vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir því hvort að náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.

Í drögum að friðlýsingarskilmálum segir að Umhverfisstofnun hafi umsjón með friðlandinu og með stofnuninni  starfi samstarfsnefnd þar sem eru fulltrúar Vesturbyggðar og landeigenda ásamt fulltrúa Umhverfisstofnunar, sem er formaður nefndarinnar.

Síðan eru settar regur um umferð um friðlandið sem eru takmarkandi. Öll umferð og landtaka skipa er bönnuð nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Umdanskilin banninu er umferð landeigenda vegna sem ekki eru í atvinnuskyni eða vegna hefðbundinna nytja hlunninda. Náttúrufræðistofnun ber ábyrgð á vöktun í friðlandinu. Framkvæmdar eru háðar leyfi frá Umhverfissstofnun og afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja innan friðlandsins.

Athyglisvert er að svo virðist að Umhverfisstofnun geri ekki athugasemd við eignarhald landeigenda að Bæjarbjarginu, sem fjármálaráðuneytið hins vegar gerir kröfu um fyrir Óbyggðanefnd að verði lýst þjóðlenda þar sem það sé ekki eignarland.

DEILA