Þrífösun rafmagns verði lokið 10 árum fyrr

Starfshópur til að greina möguleika og gera tillögur um úrbætur á raforkuflutningskerfi í dreifbýli með áherslu á þrífösun hefur skilað skýrslu til iðnaðarráðherra.  Þriggja fasa kerfi raforku hefur aukist jafnt og þétt frá aldamótum, úr því að vera 37% upp í 72% árið 2018. Þegar starfshópurinn hóf störf gerðu áætlanir dreifiveitna ráð fyrir að lokið yrði við þrífösun dreifikerfis raforku árið 2034.

Í skýrslu starfshópsins er lagt til að útfært verði átaksverkefni til næstu fimm ára. Greint verði í samstarfi við sveitarfélög forgangsröðun framkvæmda og samlegðaráhrif með ljósleiðaraframkvæmdum. Markmiðið er að fyrir árið 2024 verði að mestu lokið við að mæta forgangskröfum um úrbætur á sviði þrífösunar.

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra : „Aðgengi að þriggja fasa rafmagni er ein mikilvæg forsenda jákvæðrar byggðaþróunar á landsvísu og það er ánægjulegt að með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið munum við fyrir árið 2024 hafa lokið við að mæta forgangskröfum um úrbætur vegna þrífösunar, í stað 2034 eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.“

38 staðir á Vestfjörðum

Í skýrslunni kemur fram að á Vestfjörðum eru 38 staðir þar sem talið er útbóta þörf. Þar af eru þörfin mjög brýn á 22 stöðum, mikilvæg á 2 og æskileg á 14 stöðum.

Þessir staðir flokkast 22 í búskap, 6 í ferðaþjónustu og 10 í annað.

Greiningin er byggð á fyrirspurnum sem sendar voru til sveitarfélaga, en aðeins barst svar frá 32 af 74 sveitarfélögum landsins. Ekki kemur fram hvert svarhlutfallið var á Vestfjörðum.

DEILA