Súðavík: nýr meirihluti – oddvitinn hættir

Steinn Ingi Kjartansson, fráfarandi oddviti Súðavíkurhrepps.

Steinn Ingi Kjartansson, oddviti Súðavíkurhrepps hefur ákveðið að láta af störfum og verður haldinn aukafundur 3. maí næstkomandi til þess að kjósa sveitarstjórninni nýja forystu, bæði oddvita og varaoddvita.

Steinn Ingi lagði fram bókun á fundir sveitarstjórnar síðastliðinn föstudag þar sem hann skýrir þessa ákvörðun sína. Segist hann vilja rýma sviðið fyrir nýjum oddvita samhliða því að nýr sveitarstjóri tekur við. Fer ekki á milli mála að myndast hefur nýr meirihluti í Súðavík þar sem einn fulltrúi H-listans sem fékk meirihluta í sveitarstjórninni hefur tekið höndum saman með minnihlutanum.

Bókun Steins Inga Kjartanssonar er svohljóðandi:

„Pétur Markan sveitarstjóri lætur af störfum 30 apríl nk. og nýr sveitarstjóri Bragi Þór Thoroddsen tekur við þann 1. maí. Geng ég þá út frá því að starfsamningur við Braga sem er 4. dagskrárliður þessa hreppsnefndarfundar verði samþykktur.
Samhliða þessu hefur Guðbjörg Bergmundsdóttir varaoddviti óskað lausnar frá setu í hreppsnefnd, frá og með næsta fundi vegna búferlaflutnings.
Oddvitaári mínu á að ljúka í júní nk, en m.a. samkvæmt ofanrituðu og breytingu á meirihluta hreppsnefndar sem að lokum hefur kristallast við val á nýjum sveitarstjóra, hef ég ákveðið að láta af störfum sem oddviti Súðavíkurhepps á næsta fundi hreppsnefndar sem ég boða hér með til sem aukafundar í hreppsnefnd, föstudaginn 3 maí nk,. kl. 09.00.
Með tilvísun í 7, 8 og 10 gr. Samþykkta Súðavíkurhrepps verða tvö mál á dagskrá þess fundar:
1. Lausnarbeiðni Guðbjargar Bergmundsdóttur varaoddvita v/búferlaflutnings.
2. Kjör nýs oddvita og varaoddvita.
Ég tel það skipta miklu máli að oddviti og varaoddviti séu kosnir samtímis og með þessu fyrirkomulagi er ég að rýma sviðið og gefa nýjum sveitarstjóra, nýjum oddvita strax á fyrsta degi tækifæri til að samþætta og samhæfa störf sín fyrir sveitarfélagið. Að fenginni reynslu tel ég að gott samstarf sveitarstjóra og oddvita, ásamt hreppsnefnd sé mjög mikilvægt fyrir alla framþróun mála í sveitarfélaginu og ekki síst nú þar sem gríðarstór atvinnu- og byggðamál eru framundan þar sem kalkþörungaverkefnið er og afleidd mál tengd því verkefni.“

 

DEILA