Slysavarnaskóli sjómanna verðlaunaður

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna.

Slysavarnaskóli sjómanna hlaut hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á ársfundi samtakanna í Hörpu á föstudaginn. Í kynningu formanns SFS, Jens Garðars Helgasonar, við afhendingu verðlaunanna, kom fram að á fimmta þúsund manns hefðu farist í sjóslysum á Íslandi á 20. öldinni, en undanfarin tvö ár hafi ekkert banaslys orðið á sjó.

Slysavarnaskóli sjómanna er í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar, en hann var stofnaður árið 1985 til að sinna öryggisfræðslu fyrir sjómenn. Skólinn hefur staðið frammi fyrir því að þurfa að kaupa nýjan endurlífgunarbúnað sem notaður er við kennslu á námskeiðum fyrir sjómenn.

Verðlaunin í ár, sem Hilmar Snorrason skólastjóri veitti viðtöku, eru ein milljón króna, sem varið verður til þess að endurnýja búnaðinn. Hilmar sagði við móttöku verðlaunanna að þau væru hvatning til allra við skólann að gleyma sér ekki í unnum sigrum. Að ná tveimur árum án banaslyss á sjó væri stórfenglegur árangur sjómanna sem hefðu tileinkað sér þá þekkingu sem skólinn hefði veitt þeim.

DEILA