Samgönguráðherra: Dynjandisheiði verður flýtt

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra flytur ávarp í Dýrafjarðargöngum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra sagði í ávarpi sínu í gær við lokasprengingu í Dýrafjarðargöngum að undirbúningi að nýjum vegi yfir Dynjandisheiði yrði flýtt eins og kostur er, en framvindan yrði verulega háð málsmeðferðarhraða hjá Skipulagsstofnun.

Unnið er að frummatsskýrslu og áformað að leggja hana fram til umsagnar Skipulagsstofnunar nú í apríl eða í næsta mánuði. Vegagerðin gerir ráð fyrir að endanleg matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir haustið 2019, en hvort það gengur eftir ræðst af málsmeðferðarhraða hjá Skipulagsstofnun. Ráðherrann sagði að hægt yrði að sækja um framkvæmdaleyfi um leið og álit á matsskýrslunni lægi fyrir.

Dýrafjarðargöng gagnast strax

„Vestfjarðavegur í raun eðlilegasta leiðin til Vestfjarða, styst og tengir byggðir saman. En á henni eru margir erfiðir og dýrir kaflar. Þegar það var orðið markmið að vegir skyldu vera opnir að vetrarlagi voru heiðarnar Breiðadasheiði, Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði heldur óárennilegar og menn völdu að leggja áherslu á veginn um Djúp til að tengja Ísafjörð og nágrenni öðrum landshlutum.

Dýrafjarðargöng munu strax koma að notum af því að þá verður heiðin aðeins ein og er auðveldari að vetri en Hrafnseyraheiði.“

Bylting framundan

Annars sagði Sigurður Ingi Jóhannsson þetta um Vestfjarðaveg og það sem framundan er:

„Óhætt að segja að framundan er bylting í samgöngum með Dýrafjarðargöngum, Dynjandisheiði og veg um Gufudalssveit.

Nothæfur heils árs vegur á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar verður bylting þá fyrst getur svæðið virkað sem ein heild.

Heilsársvegur milli norður og suðursvæðis Vestfjarða mun styrkja byggð á Vestfjörðum sem hefur veikst. Með Dýrafjarðargöngum og nýjum heilsársvegi um Dynjandisheiði munum verða viðsnúningur á og munu Vestfirðingar geta sótt fram á fleiri sviðum.

Samgöngur allt árið er forsenda þess að hafa aðgang að sjálfsagðri grunnþjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu og menntun og eykur félagslega möguleika almennt.“

DEILA